Tígulegur fjórhjóladrifinn Tékki

Díóðu aðalljós að framan eru nýjung. Þar er boðið upp …
Díóðu aðalljós að framan eru nýjung. Þar er boðið upp á mismunandi lýsingu fyrir mismunandi aðstæður. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar ég sá auglýst að Škoda-bílarnir tékknesku ættu 125 ára afmæli í ár rak mig í rogastans. Ég hugsaði; bíddu nú hægur. Er svona langt síðan byrjað var að framleiða bifreiðar? Og var virkilega byrjað að framleiða Škoda um miðja 19. öldina! Ja hérna hér.

Ég áttaði mig þó fljótt á því að nú væri komið árið 2020, sem þýðir að framleiðslan hófst árið 1895. Það hljómar ögn nær í tíma, og allt í einu var þetta ekki eins undarlegt og mér þótti það fyrst.

Þarna í upphafi hét fyrirtækið Laurin & Klement, en síðar, eða árið 1925, kom Škoda Works til sögunnar og keypti Laurin & Klement. Það heiti, eða skammstöfunina, notar Škoda einmitt núna í nútímanum á einn Škoda Superb-bílinn sinn, Škoda Superb Combi 4x4 L&K. Ég gerðist reyndar ekki svo frægur að fá að aka þeirri lúxuskerru í aðdraganda þessara skrifa, heldur fékk ég í hendur uppi í Heklu ögn verr búnu Style-útgáfuna. Það er klárlega „stíll“ yfir þeim bíl, rétt eins og L&K-útgáfunni, og það væsti ekki um mig þá daga sem ég hafði bílinn til umráða.

Rétt er að geta þess hér í framhjáhlaupi að í síðasta mánuði bárust þau ánægjulegu tíðindi að fyrsti fjöldaframleiddi Škoda Superb-tengiltvinnbíllinn væri við það að lenda: Škoda Superb iV. Margir Škoda-unnendur fagna vafalítið þeim rafmagnaða valkosti, að geta stungið Škodanum sínum í samband, og vera þannig í takt við nýja tíma.

Næsta skref fyrir ofan Octavia

En aftur að hvíta Škoda Superb-bílnum sem ég var með lyklavöldin að á dögunum. Til að útskýra fyrir þeim sem ekki þekkja Škoda-fjölskylduna, þá er Superb vel búinn bíll, næsta skref fyrir ofan Škoda Octavia sem fleiri kannast við og er í hópi vinsælustu bíla á landinu. Superb er dýrari, stærri og betur búinn, og eins og sölumaður sagði við mig niðri í Heklu, þá nær Superb limúsínustærð og er því vinsæll hjá leigubílstjórum. Benti sölumaðurinn mér til dæmis á takka á hlið farþegasætisins, en þar má færa sætið rafrænt fram og til baka, sem einmitt hentar vel þegar lappalangur farþegi leigubifreiðar sest aftur í.

Þó að uppruni Škoda sé rakinn til ársins 1895 kom Škoda Superb ekki til sögunnar fyrr en árið 1934, og var svo framleiddur til ársins 1949. Árið 2001 dustaði Škoda svo rykið af Superb-heitinu og hefur framleitt Škoda Superb allar götur síðan.

Ef ég ætti að lýsa Škoda Superb í fáum orðum, þá er hér á ferðinni afskaplega þægilegur og góður bíll sem gott er að sitja í og aka í um borg og bæi, sinna daglegum erindagjörðum, en um leið að líða vel í hvers konar aðstæðum.

Škoda Superb er með drifi á öllum hjólum sem er kostur á landi eins og Íslandi þar sem ófærð er stóran hluta ársins. Eins og Íslendingar kannast við virðist veturinn stundum aldrei ætla að hætta, en Škoda gerir köldu mánuðina bærilegri með notalegum hita í sætum. Stýrið er leðurklætt og mjúkt og það kunni undirritaður einnig vel að meta. Superb býður upp á ýmislegt sem prýðir nútímabílinn, eins og bakkmyndavél og nálgunarvara í fram- og afturstuðara. Ég verð að hrósa bakkmyndavélinni sérstaklega. Hún var að mínu mati óvenju skýr, bæði að degi til og þegar dimma tók. Þá var upplýsingakerfið mjög bjart, smekklegt og aðgengilegt.

Talandi um hita í sætum, þá eru takkar fyrir hita í aftursætum í Style-útgáfunni, en þegar þrýst var á þá takka voru þeir óvirkir. Það er jafn skrýtið og þegar ég greip í sveifina í skottinu til að snara fram dráttarkúlunni, og engin dráttarkúla birtist. Það er alltaf eitthvað skrýtið við svona draugatakka í bílum, en þessi virkni er til staðar í L&K-útgáfunni.

Innra byrði bílsins er til fyrirmyndar. Svæðið í kringum gírstöngina er allt úr svörtu háglansandi plasti og hönnun mælaborðsins er sömuleiðis mjög smekkleg. Leðurklædd sætin eru ekkert slor og það gladdi mig þegar mér tókst án mikillar fyrirhafnar að tengja Nokia-símann minn við upplýsingakerfið. Það er svo sannarlega ekki sjálfgefið, því ég lendi ítrekað í vandræðum með slíkar tengingar í bílum sem ég reynsluek. Ég gat því með auðveldum hætti hringt símtöl án þess að taka hendur af stýri, og hlustað á Spotify að vild, þótt síminn sé vissulega að verða gamall og slitinn.

Matrix-ljós lifandi og snjöll

Matrix-framljósin í bílnum vöktu hrifningu mína. Þetta eru snjallljós sem deyfast ef þau eru há og mæta öðrum bíl og lýsa út til hliðanna í beygjum til að mynda. Allt þetta var gaman að prófa í íslenska skammdeginu.

Skottið er stórt fyrir bíl af þessari stærð. Að auki er boðið upp á þónokkurt úrval af hönkum til að hengja til dæmis búðarpoka í, ásamt því sem hægt er að ýta á takka í skottinu til að fella niður sætin og auka þar með flutningsgetuna til muna. Varadekk er svo undir gólfinu í skottinu, sem er alltaf traustvekjandi. Skottlokið er með rafknúinni ljúflokun, sem bætir, hressir og kætir.

Það væri að æra óstöðugan að telja upp allt sem Superb hefur að bjóða, enda býr hann yfir flestu því helsta sem gæti prýtt góðan bíl í dag. Nefni ég hér hluti eins og USB-tengi, aðstoð við að leggja í stæði og skriðstillingu sem eltir næsta bíl, sem Škoda Superb býður nú upp á í fyrsta skipti.

Höfuð- og fótapláss er gott í aftursæti, og fyrir þá sem eiga fjölskyldur og vilja að vel fari um alla ætti Škoda Superb að vera fyrirtaks valkostur.

Škoda Superb Limo 4x4 Style Dísil

» 2,0 lítra dísilvél

» 190 hö/400 Nm

» 7 þrepa sjálfskipting

» 0-100 km/klst. á 8 sek.

» Hámarkshraði 232 km/klst.

» 4x4

» 17 tommu álfelgur

» Eigin þyngd 1.665 kg

» Farangursrými 625 lítrar

» Megnunargildi 127 g/km

» Akstur í blönduðum: 4,8 lítrar

» Verð frá 4.550.000 kr.

» Umboð: Hekla

Ekki væsir um ökumann og farþega, og er skottið líka …
Ekki væsir um ökumann og farþega, og er skottið líka rúmgott. mbl.is/Árni Sæberg
Bakkmyndavélin er einstaklega skýr, bæði í dagsbirtu og myrkri.
Bakkmyndavélin er einstaklega skýr, bæði í dagsbirtu og myrkri. mbl.is/Árni Sæberg
Vélin skilar sínu og allur tæknibúnaður er eins og í …
Vélin skilar sínu og allur tæknibúnaður er eins og í fullkomnustu bílum. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: