Diplómat sem máli skiptir

Flestir átta sig á því að tækni sem tengir saman vélar knúnar eldsneyti og mótora sem ganga fyrir rafmagni er mikilvægt skref í átt til algjörrar rafvæðingar. Innan eins eða tveggja áratuga má gera ráð fyrir að nær öll ný ökutæki á götunum verði knúin áfram með rafmagni, annaðhvort sóttu beint í rafhlöður eða í vetni sem með efnahvörfum er breytt í rafmagn á leið sinni út í mótor.

Tæknin sem oftast er vísað til með hinu óþjála samsetta orði „tengiltvinn“ en ætti auðvitað að kalla tvígengis (ef það vekti ekki vondar minningar um horfna tækni) hefur skipt sköpum í þessari þróun. Aðeins eitt hefur staðið henni fyrir þrifum og það er sú litla drægni sem tengiltvinnbílar hafa í raun boðið upp á. Oft hafa þeir verið gefnir upp með 40-50 km drægni á rafmagni en reyndin hefur gjarnan verið sú að rafhlaðan hefur ekki enst nema í 25-30 kílómetra og jafnvel styttra þegar mjög kalt er í veðri.

Gerir úrtölumennina orðlausa

Þessi staða hefur komið hálfgerðu óorði á tvígengistæknina og gefið mörgum afturhaldssömum bílaeigandanum ástæðu til að skauta fram hjá þessum augljósa kosti í bílaflórunni. Jafnt og þétt hefur staðan þó batnað og bílar á borð við Kia Optima hafa sýnt fram á að hægt er að búa þessa bíla þannig úr garði að drægnin verði meiri.

En nú hefur Mercedes-Benz stigið skref í þessum efnum sem virkilega munar um. Sennilega mun það draga marga að þessari tækni, sem hingað til hafa ekki látið sér koma til hugar að knýja bíla sína áfram með blönduðum hætti. Það sem styður einnig við skrefið er að þýski framleiðandinn stígur skrefið á stórum bíl og tiltölulega þungum.

GLE 350 de er ekki stærsti jeppinn sem Benz framleiðir en hann er þó í vinsælum stærðarflokki jeppa sem heppilegir eru til notkunar innan borgar sem utan. Er honum alla jafna skákað á móti X5 hjá BMW og Cayenne hjá Porsche.

Með nýrri hönnun sem gerir hönnuðum GLE kleift að koma 31 kWst rafhlöðu undir bílinn er kominn fram á sjónarsiðið jeppi sem er á þriðja tonn að þyngd en hefur raundrægni upp á u.þ.b. 70 km (uppgefin drægni er 94 km en slíku verður ætíð að taka með eðlilegum fyrirvara).

Það er ekki aðeins gríðarleg drægni þegar tillit er tekið til þess hversu stór bíllinn er – hún er einfaldlega mjög mikil í öllum samanburði og X5 45e bíllinn er t.d. með 24 kWst rafhlöðu sem gefur raundrægni upp á u.þ.b. 50 km.

Feikileg drægni á rafmagninu

Drægni upp að 50 km dugar flestum flesta daga og 70 km ættu að tryggja nær öllum sem ekki eru að ferðast um langan veg nær áhyggjulausa daga án eldsneytiseyðslu. Það er líka magnað að komnir séu fram bílar búnir þessari tækni sem hafa rafmagnsdrægni sem duga myndi undir flestum kringumstæðum milli Reykjavíkur og Selfoss og jafnvel milli höfuðborgarinnar og Borgarness. Sölutölur á GLE 350 de hér heima sýna svo ekki verður um villst að Benz hefur hitt margan jeppaeigandann í hjartastað. Flestir þeirra sem þar eiga í hlut munu innan fárra ára stíga skrefið til fulls en með þessu móti tekst fyrirtækinu að brúa bil milli tveggja heima; fortíðar og framtíðar. Hann gerir það listavel.

Það er auk þess ekki bara hin óviðjafnanlega drægni sem þar ræður för. Hönnun bílsins hefur komið mjög vel út. Afturendinn vekur þar sérstaka eftirtekt en breytingarnar á honum tengjast m.a. því verkefni sem verkfræðingar Benz fengu og fólst í að koma stórri rafhlöðu fyrir. Virkar bíllinn núna nokkuð „mjaðmabreiður“ en það kemur vel út og sportlega.

Aðrir þættir í hönnun bílsins, innanstokks ekki síst, sverja sig í ætt við annað sem frá Benz kemur.

Einhverjum mun bregða við að setjast undir stýri á þessum bíl. Drægnin kemur hægt og bítandi í ljós en þegar hann skiptir milli rafmagns og dísels óma tónar þessa dags og morgundagsins. Framtíðin er hljóðlátari en urrandi díselvélin sem þó hefur ekki misst sjarma sinn, síst þegar hún er látin vinna með rafmagninu.

Mercedez-Benz GLE 350 de

» Dísil-tengiltvinnvél 306 hestöfl/700 NM

» 9G-Tronic sjálfskipting

» 0-100 km/klst á 6,8 sek.

» Fjórhjóladrifinn

» 21 AMG álfelgur

» Eigin þyngd 2.580 kg

» Farangursrými allt að 1.915 lítrar

» Mengunargildi 34 g

» 1,1 lítri í blönduðum akstri

» Verð frá 11.690.000 kr

» Verð á prófuðum bíl 12.990.000 kr

» Umboð: Askja hf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: