Bresk lúxuskerra frá Kína

MG ZS EV er smart að utan og rúmgóður að …
MG ZS EV er smart að utan og rúmgóður að innan og er lúxusútgáfan hlaðin aukabúnaði, eins og opnanlegu glerþaki. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þegar ég tók upp símtólið dag einn í vikunni og var beðin um að reynsluaka nýjum bíl og skrifa um þá reynslu, hélt ég að umsjónarmaður bílablaðsins hefði hringt í skakkt númer.

Hann fullvissaði mig um að svo væri ekki, enda þótt ég væri enginn bílasérfræðingur hefði ég jú verið með bílpróf í 36 ár og það hlyti nú að telja eitthvað. Og þegar ég hugsaði málið mundi ég einnig að ég hafði verið gift bílaáhugamanni miklum í tólf ár og það var ekki lítið spáð í eðalkerrur. Ekki get ég sagt að það hafi verið mínar uppáhaldsstundir í hjónabandinu, sunnudagsrúntarnir á bílasölur, en eitthvað síaðist inn í kollinn um bíla.

Nóg um það. Leiðin lá nú í BL-umboðið þar sem undirrituð sagðist eiga erindi; að sækja bíl til reynsluaksturs. Á þeim tímapunkti hafði ég ekki hugmynd um hvaða bíl, en snaggaralegur bílasali rétti mér lykla að hvítum jepplingi, af MG-gerð. Ég fékk að sjálfsögðu að prófa lúxusgerðina, MG ZS EV.

Hvaða tegund er þetta?

Bíllinn stóð í salnum, skínandi nýr og fagur. Ég sem hélt ég vissi eitthvað um bíla varð að játa að ég hafði ekki heyrt þessa tegund nefnda og spurði hikandi: „Hvaða bíll er þetta eiginlega?“

Jú, bílasalinn sannfærði mig um að MG-bílar hefðu verið til í hundrað ár, væru breskir, en mögulega ekki mjög þekktir hér á landi. Reyndar eiga Kínverjar nú þessa bílategund.

MG stendur fyrir Morris Garages og má rekja tegundina allt aftur til ársins 1920. Við nánari skoðun má sjá að MG framleiddi afar fallega sportbíla hér á árum áður. En nú er öldin önnur; bíllinn er hentugur fjölskyldubíll og hundrað prósent knúinn áfram af rafmagni.

Það kom svo í ljós yfir kvöldmatnum að hvorki móðir mín né unglingssynir höfðu heyrt talað um þessa tegund. Eins gott að heyra það; ég var alla vega ekki ein um það.

Hundrað prósent rafmagn

Með eftirvæntingu settist ég undir stýri á þessum glænýja rafmagnsbíl sem nú hafði opinberast mér.

Eftir að hafa lagað sætið til með rafknúnum tökkum, var bakkað út úr stæðinu. MG ZS EV rann ljúflega af stað, og nokkuð hljóðlega, enda 100% rafmagnsbíll. Hann kemst 263 kílómetra á einni hleðslu, en að sögn sölumanns BL jafnvel yfir 300. Bíllinn er hlaðinn aukabúnaði eins og opnanlegu glerþaki, bakkmyndavél, upphituðum framsætum, rafdrifnu ökumannssæti og regnskynjara, svo eitthvað sé nefnt.

Auk þess er hann með blindhornaviðvörun og aðvörun á hliðarumferð. Á hliðarspeglum blikkaði sem sagt lítið ljós þegar bíll nálgaðist til hliðar við bílinn. Einnig pípti hann á mann ef bíllinn fór of nálægt götulínum. Sem betur fer er hægt að taka pípið af, enda fullfrekt. Klárlega er samt gott að kveikja á því þegar keyrt er á þjóðvegum en frekar hvimleitt í innanbæjarakstri.

Breytt með einum takka

Næsta sólarhringinn var rúntað um bæinn; út á Álftanes, upp í Heiðmörk og víða um bæinn. Það fór vel um mann í sætinu sem var afar þægilegt. Það var mjög gott að keyra bílinn, hann var lipur og stýrið létt. Það var bjart inni í bílnum sökum glerþaksins sem er kostur, og mjög gott útsýni þegar horft var í baksýnisspegilinn.

Bíllinn var rúmgóður og stílhreinn að innan. Skottið var stórt en hægt er að hafa það í tveimur stillingum, djúpt og grynnra, sem er snilld.

Eitt sem fór í taugarnar á mér var að um leið og fóturinn fór af bensíngjöfinni, eða í þessu tilviki rafmagnsgjöfinni, þá missti hann allt afl og hægði á sér mjög hratt. En það gera víst allir rafmagnsbílar skilst mér. Það kom þó ekki að sök því hægt var að breyta þessu með einum takka og þá rann bíllinn ljúflega áfram, þrátt fyrir að fóturinn væri í smá pásu. En gallinn er sá að þá sparar maður minna rafmagn og kemst þá styttri vegalengd. Ég held að þetta sé eitthvað sem venjist fljótt og smátt og smátt lærir maður að hafa bara fótinn á inngjöfinni.

Gott verð fyrir lúxusrafmagnsbíl

Bíllinn er afar hentugur fjölskyldubíll að mínu mati. Alveg ágætiskraftur og fínn í akstri. Honum svipar mjög í útliti til annarra jepplinga á markaðnum. Þó er hann er alveg nokkuð smart.

Svo er óhætt að segja að hann sé á mjög góðu verði miðað við lúxusrafmagnsbíl en hann kostar rúmlega fjórar milljónir í Luxury-útgáfu en tæpar fjórar í Comfort-útgáfu. Þar sem augljóst er að við verðum öll komin í rafmagnið innan nokkurra ára, er ekkert að því að prófa MG ZS EV.

MG ZS EV Luxury

» Rafdrifinn m. 44 kWst rafhlöðu

» Sjálfskiptur

» Framhjóladrifinn.

» 143 hestöfl / 353 Nm

» 100 km/klst. á 8,2 sek.

» 140 km/klst. hámarkshraði

0g CO2/km

» 263 km drægi á hleðslu

» Eigin þyngd 1.566 kg

» 448 l farangursrými

» Umboð: BL

» Grunnverð: 3.990.000 kr. (Comfort)

» Verð eins og prófaður: 4.390.000 kr.

Fyrir áhugasama um vélar sést hér undir húddið á MG …
Fyrir áhugasama um vélar sést hér undir húddið á MG ZS EV. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
MG ZS EV.
MG ZS EV.
MG ZS EV.
MG ZS EV.
MG ZS EV.
MG ZS EV.
MG ZS EV.
MG ZS EV. mbl.is/Ásdís
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: