Hinn eini sanni

Bestu bílarnir fá mann til að hugsa um lífið og tilveruna. Þar sem ég ók um hraðbrautirnar í Los Angeles á eldrauðum og ómótstæðilegum McLaren GT komst ég ekki hjá því að hugleiða hvernig leitin að rétta bílnum er á margan hátt eins og leitin að rétta makanum.

Við bílakaup, rétt eins og í makaleitinni, brenna margir sig á að leggja ofuráherslu á útlitið og láta valið fyrst og fremst stjórnast af því hvaða bíll hefur fallegustu útlínurnar og mesta kraftinn. Kaupendur af þessari sort upplifa yndislega hveitibrauðsdaga með bílnum og fá heilmikið út úr augngotum fólks á förnum vegi, og aðdáunaröfund ættingja, vina og vinnufélaga. En þeir sem reynt hafa vita að fallegur sportbíll getur verið jafn erfiður í sambúð og skapvond fyrirsæta sem hefur vanist því að fá alla hluti upp í hendurnar. Það getur verið agalega gaman að fara í stutta bíltúra út fyrir bæinn en þeim mun erfiðara að aka slíkum bílum hvern einasta dag. Hvaða gagn er jú af bíl með skott sem rúmar varla tvo innkaupapoka? Hversu fljótt þreytist maður á að lifa með bíl sem erfitt er að komast inn í og út úr, með svo hörð og aðsniðin sæti að í lok hverrar ferðar er líkaminn lurkum laminn?

En það er ekki mikið skárra hlutskipti að vera á hinum enda skalans og leggja ofuráherslu á það hvað bíllinn hefur mikið notagildi og er hagkvæmur í rekstri. Það er ekki amalegt að eiga stóran og stæðilegan slyddujeppa sem alltaf er hægt að stóla á; með pláss fyrir barnaskara, reiðhjól, skíði og tvo hunda; sparneytinn og með sárlitla þörf fyrir viðhald – en þannig bílar fá hjartað ekki til að slá hratt. Þeir sem taka praktísku þættina fram yfir hraðann, kraftinn og útlitið gætu staðið sjálfa sig að því að líta á bílana í kringum sig í umferðinni og óska þess að þeir væru frekar á bak við stýrið á snotra sportbílnum sem var að bruna fram hjá.

Vitaskuld eru sumir sem geta ekki látið sér nægja að eiga bara einn bíl, og vilja eiga heilt „harem“ af farartækjum til að velja úr eftir skapi og þörfum þann daginn, en fæst okkar geta leyft sér slíkan lúxus. Svo eru hinir sem eiga jarðbundinn bíl í hlaðinu heima en nota tækifærið í ferðalögum til útlanda til að taka yngra og öflugra módel á leigu dag og dag í senn – en með slíkum skrifum er ég farinn að hætta mér út á hálan ís.

Aðalatriðið er þetta: við leitum yfirleitt að bíl sem hakar við öll boxin. Draumabíllinn ræður jafn vel við að spana hring á kappakstursbraut og fara í rólegan ísbíltúr; hann tekur sig vel út þar sem hann stendur óhreyfður í bílastæðinu en það er líka yndislegt að aka honum landshluta á milli í einum rykk. Hann bregst ekki þegar á reynir, gerir dagana skemmtilegri og gefur og þiggur í réttum hlutföllum.

Margir framleiðendur hafa reynt að fullkomna þessa formúlu en þegar litið er yfir sviðið fæ ég ekki betur séð en að McLaren GT hafi vinninginn.

McLaren GT.
McLaren GT. mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Er pláss fyrir adrenalín í skottinu?

Ég var að farast úr spenningi þegar ég lenti í Los Angeles fyrr í vetur en þar hafði breski bílaframleiðandinn McLaren tekið frá fyrir mig bíl til að hafa afnot af í nokkra daga.

Í nærri sex ár hef ég freistað þess að komast í blaðamannabílana hjá McLaren en það er allt annað en auðvelt að fá bíl að láni hjá framleiðendum sem ekki eru með umboðsaðila á Íslandi. Raunar er það mesta furða hversu vel hefur gengið í gegnum árin að plata ítölsku og bresku lúxus- og sportbílabílaframleiðendurna til að skaffa bíla fyrir mig til að skrifa um.

Var ég sérstaklega áhugasamur um að aka McLaren einmitt vegna þess að frá því ég byrjaði fyrst að skrifa bíladóma hef ég litið á bílablaðamannsstarfið sem langtímaverkefni þar sem lokatakmarkið er að finna hinn eina sanna og fullkomna bíl; bílinn sem ég tæki fram yfir alla aðra og gæti hæglega hugsað mér að búa með ævina á enda. Innst inni vonaði ég að leitin væri á enda, því það hefur veirð útgangspunktur í bílahönnun McLaren að búa til virkilega lipra og hraðskreiða sportbíla sem enginn vandi er að aka alla daga.

Leitin að draumaprinsinum hefur verið löng og ströng. Fyrst hélt ég að Bentley Continental GT væri draumabíllinn: kraftmikill og sportlegur en líka virðulegur, vandaður og gegnheill, með risastórt skott og þægilega nærveru. Var unaðslegt þegar ég fékk að aka einum slíkum um Þýskaland, Tékkland og Ungverjaland árið 2016 og lengi hélt ég að ekkert gæti trompað þá upplifun.

En þá kynntist ég Lamborghini Aventador SV og fannst Bentleyinn vera frekar lágstemmdur í samanburði. Stælarnir í Aventadornum höfðuðu sterkt til mín en ég fann um leið að það yrði ekki eintóm sæla að búa með þannig bíl: hann er aðeins of stífur, stæltur og frekur; sætin gefa ekkert eftir enda hönnuð fyrir kappakstursbrautina, sjónsvið ökumanns óþægilega þröngt og fjöðrunin svo lítil að minnsta misfella í malbikinu kallar á að bóka tíma hjá hnykkjara. Maður hlustar ekki á uppáhaldstónlistina í þannig bíl því aðeins vélar- og veghljóðið kemst að og tilhugsunin um langa bíltúra vekur upp kvíða.

Væri kannski hægt að finna bíl sem blandaði saman lúxusnum hjá Bentley og tilfinningahitanum hjá Lamborghini? Svarið kom í Singapúr árið 2018 þegar Aston Martin leyfði mér að taka stuttan hring á DB11. Sá bíll er ekkert slor: lágur, nettur og sportlegur en samt hægt að rúma golfsett eða nokkrar litlar ferðatöskur í skottinu. Ég var hrifinn en saknaði samt þess ofsafengna og afgerandi persónuleika sem ég hafði kynnst hjá Lamborghini, því DB11 fnæsir ekki eins og naut þegar stigið er á bensíngjöfina.

En hvað með ögn mildari útgáfu af Lamborghini? Á tímabili var niðurstaðan af rannsóknum mínum sú að ef ég kemst einhvern tíma í álnir væri það Lamborghini Huracán – litli Lambóinn – sem kæmist næst því að vera nákvæmlega eins og ég vil að draumabíllinn sé: algjörlega ómótstæðilegur í útliti, hæfilega þægilegur í akstri og með einstaklega fallegt vélarhljóð, laust við allan forþjöppuhvin.

Verst að Huracán er ekki með vænghurðir. Draumabíllinn hreinlega verður að hafa vænghurðir svo að allir taki örugglega eftir því þegar sjálfur stjörnublaðamaðurinn mætir á svæðið!

Bíll með sterka nærveru

Hvernig fór svo stefnumótið? Stóð McLaren GT undir væntingum?

Svarið er á þá leið að ég varð fljótlega skotinn, en það var ekki fyrr en að stefnumótinu loknu að það rann upp fyrir mér að ég væri orðinn ástfanginn. Það er nefnilega þannig að stundum þarf maður smá tíma til að átta sig á að maður hefur fundið hinn eina sanna.

Leitun er að fallegri bíl – um það verður ekki deilt – og ég fæ það á tilfinninguna að McLaren GT muni eldast afskaplega vel. Sérhver lína þjónar ákveðnu hlutverki (GT er laus við hvers kyns göt og glingur sem sumir framleiðendur setja á sína bíla bara til skrauts) og eftir því sem ég virti bílinn betur fyrir mér því fallegri fannst mér hann.

Þá skyldi ekki vanmeta hversu sérstök athöfn það er að opna vænghurðirnar. Vitaskuld er miklu auðveldara að komast inn í og út úr bílnum þegar hurðirnar galopnast upp á við, og léttir lífið þegar leggja þarf í þröngt stæði. En vænghurðir hafa líka merkileg sálræn áhrif; svipuð þeim sem maður finnur við það að reyra á sig skíðaskó eða boxhanska: maður kemst í ákveðið hugarástand og er til í tuskið.

Svo gera vænghurðirnar heilmikið til að slá á minnimáttarkennd meðallaunamanns í millistétt, og bregst ekki að fólk tekur eftir því, og stundum að það hreinlega gapir, þegar hurðirnar á bíl opnast upp á við frekar en út til hliðanna.

Þegar inn í GT er komið fer vel um ökumann og farþega og útsýnið miklu betra en í sportbílum á borð við Aventador, Huracán eða Lotus Evora sem ég reynsluók sumarið 2020. Að hafa gott útsýni þýðir að maður hefur meira sjálfstraust í umferðinni og er ekki logandi hræddur við að beygja óvart fyrir bíl og sitja uppi með himinháan reikning.

Frágangurinn er eins og hann á að vera: ekta leður og ekta málmur á öllum réttu stöðunum, og hönnunin hvorki of íburðarmikil né of berstrípuð.

Vantar meiri sjálfvirkni

Hljóðkerfið er prýðilegt og leiðsögukerfið sömuleiðis en ég saknaði þess að hafa ekki 360° myndavélakerfi til að auðvelda mér að koma bílnum fyrir í stæði. GT er nettur og ekkert agalega vandasamt að leggja honum vel en á svona dýrum bíl hefur það róandi áhrif á taugarnar að vita upp á hár hvað er í kringum ökutækið þegar lagt er í stæði. Bakkmyndavélin er á sínum stað og birtist myndin í mælaborðinu en ég rak mig á að ef ég þurfti að snúa stýrinu til að bakka í stæði þá gerðist það yfirleitt að stýrið byrgði mér sýn á skjáinn.

Eins og lesendur vita getur umferðin orðið mjög þung í Los Angeles og eins og það gat verið gaman að gefa í þegar hraðbrautirnar voru tiltölulega tómar þá hefði verið gott að hafa sjálfvirkan skriðstilli (e. adaptive cruise control) sem myndi einfaldlega greina og fylgja hraða næsta bíls á undan. McLaren hugsar GT sem heimsins hraðskreiðasta langferðabíl og skrítið að svona akstursbúnaði, sem léttir líf ökumanns til muna, skyldi vera sleppt – hvað þá þegar haft er í huga að sjálfvirkur skriðstillir er í dag staðalbúnaður hjá mörgum framleiðendum.

Og talandi um að gefa í: í venjulegri umferð gat ég ekki greint mikinn mun á hegðun og hljóði bílsins þegar ég fiktaði í takkanum sem breytir aksturs-stillingunum. Á sport-stillingu er það aðallega gírunin sem breytist og nokkrir ventlar á hljóðkútnum opnast, sem þýðir að meiri læti eru í vélinni og hægt að hafa gaman af hljóðinu og viðbragðinu, en mér þótti alveg nógu gaman að stilla alla takka á þæginda-stillingu. Vélarhljóðið fær ekki hárin beinlínis til að rísa, ólíkt 10 og 12 strokka vélunum frá Lamborghini, en McLaren gefur alveg nógu skemmtilega hljóðupplifun þegar vélin er ræst eða þegar stigið er fast á bensíngjöfina.

Verst af öllu var þegar ferðafélagi minn í Los Angeles benti á að McLaren GT svipar til nýju Corvettunnar í útliti. Ég hef fengið að aka Corvettunni, þótt ég hafi ekki skrifað um það í blaðinu, og þótt hún sé afskaplega skemmtileg og ökumaður fái mikið fyrir peninginn þá er upplifunin af að aka McLaren GT langtum betri. Er svolítið spælandi hvað GT og nýja Corvettan eru líkir bílar, hvað þá þegar lætur nærri að kaupa megi fjórar Corvettur fyrir verð eins McLaren.

En þeir sem hafa eitthvert vit á bílum og sjá McLaren á förnum vegi fara létt með að átta sig á að þar er á ferð exótískt undur. Ég skaust í nokkrar búðarferðir á sportbílnum og það brást ekki að í hvert skipti sem ég labbaði út úr WalMart eða Target með innkaupapokana í fanginu kom ég að einhverjum að skoða bílinn og ljósmynda hátt og lágt.

Talandi um innkaupapoka: það er ekki síst geymslurýmið sem á að gera McLaren GT að langferða- og hversdagsbíl. Að framan er skott sem er svipað að stærð og í flestum ofursportbílum, og getur rúmað eina og jafnvel tvær handfarangurstöskur. Ólíkt hinum bílunum sem McLaren framleiðir er GT líka með skott að aftan og skiptist afturskottið í tvo parta: Annars vegar er lítið hólf næst afturstuðaranum sem getur rúmað íþróttatösku, og hins vegar er rýmið undir afturrúðunni þar sem leggja má golfkylfusett langsum. Lítil hilla er á bak við sætin og hentar undir skjalatösku, jakka eða minni gerðina af bakpoka.

Hugsa ég að ef ég ætti þennan bíl myndi ég sjaldan nota afturskottið, enda kann ég þá list að pakka létt fyrir ferðalag og hef lítinn áhuga á golfi. Gæti ég því allt eins valið módel eins og 720S sem fórnar afturskottinu en er í staðinn með lítinn glugga niður í vélarrúmið.

Þegar ég legg saman ótalmarga plúsa og fáa mínusa grunar mig að ég hafi loksins fundið rétta bílinn fyrir mig og í dagdraumum um ævintýralega lottóvinninga stend ég mig að því að ímynda mér að það fyrsta sem ég myndi gera eftir símtalið frá Íslenskri getspá væri að leggja inn pöntun hjá McLaren.

Loksins hef ég fundið hinn eina sanna – eða a.m.k. þangað til þau hjá Bugatti og Koenigsegg láta svo lítið að svara ítrekuðum tölvupóstum frá mér um að koma á stefnumót.

Ættarsvipurinn leynir sér ekki

Rekja má sögu McLaren aftur til ársins 1963 þegar Nýsjálendingurinn Bruce McLaren stofnaði Formúlu 1-keppnislið undir eigin nafni, en það var ekki fyrr en árið 1992 að fyrsti fólksbíllinn merktur McLaren leit dagsins ljós. Var það McLaren F1-ofursportbíllinn sem á þeim tíma var hraðskreiðasti fjöldaframleiddi bíll í heimi.

Segja má að allir fólksbílar McLaren síðan þá beri keim af F1, bæði hvað varðar útlínur og yfirbragð bílanna, en líka hvað varðar þann metnað og djörfung sem er ofið saman við erfðaefni framleiðandans.

Í skottinu rúmast heilt golfsett
Í skottinu rúmast heilt golfsett

McLaren F1 markaði djúp spor í bílasöguna en fyrirtækið gerði engu að síður langt hlé á framleiðslu fólksbíla eftir að síðasti F1 rann út af færibandinu (ef undan er skilinn SLR McLaren sem framleiddur var í samvinnu við Mercedes-Benz) og var það ekki fyrr en árið 2010 að hulunni var svipt af MP4-12C (sem síðar var einfaldlega kallaður 12C). Ráku bílaáhugamenn upp stór augu enda var þar komið ökutæki sem jafnaðist hæglega á við fallegustu og hraðskreiðustu ítölsku tryllitæki en þótti um leið óvenjuþægilegt í akstri. Var það ekki að ástæðulausu að í umsögnum bílablaðamanna var oft minnst á að 12C væri fyrsti ofursportbíllinn sem gæti hentað til daglegs aksturs.

Jafnt og þétt stækkaði úrvalið og var rakettan P1 kynnt til sögunnar 2013, hinn meðalsterki 650S frumsýndur ári síðar og árið 2015 bættust við þrír tiltölulega aðgengilegir sportbílar: 570S, 625C og hinn langferðavæni 675LT. Árið 2016 kom út 540C, árið 2017 var það 720S og árið 2018 600LT og Senna.

McLaren GT, sem fjallað er um hér að framan, var frumsýndur 2019 sem eins konar bræðingur af ofursportbíl og langferðabíl: nógu snarpur fyrir hraðafíklana en með nógu stórt skott til að rúma heilt golfkylfusett.

Síðan þá hafa bæst við vöðvbúntið 620R, meðalsterki ofursportbíllinn 765LT og hinn mjög svo straumlínulagaði Speedtail – allir árið 2020, en árið 2021 komu að auki tvinnbíllinn Artura og hinn þaklausi Elva.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina