Mercedes-Benz hefur nú selt rúmlega 10 milljónir bíla af C-flokki sínum frá því hinn fyrsti, Mercedes-Benz 190, var kynntur til sögunnar árið 1982. Síðan hafa fjórar kynslóðir séð dagsins ljós.
Af nýjustu kynslóð C-bílanna hafa selst 2,3 milljónir bíla frá því hún kom til skjalanna 2007. Þar sem C-bíllinn var á sínum tíma minnstur í bílalínu bílsmiðsins var hann markaðssettur sem „Baby Benz“. Nú til dags er hann einn sá vinsælasti, ef ekki sá vinsælasti, í þessum stærðargeira lúxusbíla.
Mest selst C-klassa bíllinn sem tveggja dyra, og það á nær öllum helstu markaðssvæðum heims. C-klass langbakurinn nýjasti hefur selst í tæplega milljón eintaka og var valinn fyrirtækjabíll ársins 2011 í Þýskalandi.