Allir bílablaðamenn (og lesendur þeirra) vita að það getur verið erfitt að dæma bíl á gagnlegan en skemmtilegan hátt.
Til þess að útskýra af hverju bíllinn er öðruvísi en aðrir bílar þarf að grípa til tæknilegra upplýsinga, og þær eru leiðinlegar. Til að útskýra af hverju eru góð eða slæm kaup í bílnum þarf að segja frá eyðslutölum og notagildi. Og það er leiðinlegt og fólk vill helst ekki lesa eða horfa á leiðinlega bíladóma.
Margir bílablaðamenn hafa því gripið til þess ráðs að troða leiðinlegu upplýsingunum í skemmtilega sögu og reyna þannig að fanga athygli lesenda og áhorfenda.
Gott dæmi um þetta eru galgoparnir í Top Gear, en meira að segja Jeremy Clarkson var óttalega kjánalegur þegar hann var að byrja.
Nú hefur hins vegar rekið á fjörur mbl.is bíladóm sem er líklega sá besti sem gerður hefur verið frá upphafi.
Og það er sko enginn dolla sem er verið að dæma, heldur fyrsta kynslóð Mazda MX-5, mest selda sportbíls allra tíma.
Af hverju er þessi dómur svona góður? Þú verður bara að horfa og sjá.
Ef þú gerir myndbandsdóm um þinn eigin bíl (eða annan bíl sem þú hefur aðgang að), sendu okkur hlekk á myndbandið á bill@mbl.is og við birtum þá skemmtilegustu á mbl.is.