Byltingin er hafin

„Það góða við Tesla Model S er það að hann …
„Það góða við Tesla Model S er það að hann er ekki háður því að þurfa að hlaða annars staðar en heima hjá sér.“ mbl.is/RAX

Rafbílavæðingin heldur áfram og rafbílarnir frá Tesla hafa vakið talsverða athygli. Even er umboðsaðili Tesla á Íslandi og forstjórinn Gísli Gíslason er ekki í vafa um hver þróunin verður á næstu mánuðum, misserum og árum.

Ekki hafa allir verið jafn sannfærðir um ágæti og hagnýti þess að skipta jarðefnaeldsneytinu út fyrir rafmagn og fyrir fáeinum árum, þegar bílarnir frá Tesla komu fyrst í umræðuna fundu margir þeim flest til foráttu. „Það var árið 2008, man ég, að bloggheimar loguðu stafna á milli í umræðu um að Tesla mundi óhjákvæmilega fara á hausinn. Viðskiptamódelið myndi ekki ganga upp því forsendur væru einfaldlega ekki fyrir rafbíl af þessari gerð. Fyrir bragðið var fullyrt að allir sem myndu setja pening í fyrirtækið, eða borga inn á eintak af fyrsta módelinu, Tesla Roadster, til að tryggja sér hann til kaups, myndu óumflýjanlega tapa sínum peningum. Á þessum nótum var umræðan að miklu leyti,“ segir Gísli um upphaf þess að hann afréð að tryggja sér umboðið fyrir bílunum. „Það breytti þó engu um að ég varð alveg heillaður af þessu dæmi, og þóttist sjá að þetta væri framtíðin þar eð þarna væri á ferðinni tækni sem enginn annar hefði yfir að ráða. Ég ákvað því að tryggja mér eintak og millifærði innborgun tafarlaust.“

Staðið við stóru orðin

Þessari pöntun muna menn í höfuðstöðvum Tesla eftir, segir Gísli og kímir við. „Þeir hafa síðan þá sagt mér að þá hafi rekið í rogastans þegar pöntun barst frá Íslandi, af öllum stöðum. Þeir hugsuðu með sér að annaðhvort væri maðurinn algjörlega úr takti við umheiminn – því líkast til væri ekki einu sinni netsamband á Íslandi – eða þá hann hefur virkilega trú á okkur! Þeir muna eftir þessari pöntun því hún barst þeim þegar allt var í kaldakoli hvað umræðuna varðaði, jafnvel þó að þeir hafi vitað að þeir voru að gera hárrétta hluti.“ Í framhaldinu fór það þó svo að allt stóðst sem þeir Tesla-menn sögðu, og Elon Musk og félagar hjá Tesla skiluðu bílnum, og öðrum til, á tilsettum tíma og á tilsettu verði. Grundvallaratriði á þeirri vegferð er að sögn Gísla sú sýn sem aðalsprauta fyrirtækisins, Elon Musk, hafði frá upphafi. „Hann réði átta stráka til að búa til fyrstu frumgerðina að Tesla Model S eftir hans hugmyndum og leiðbeiningum. Það tók þá átta mánuði að ljúka þeirri smíði og þá voru þeir komnir með bíl sem hægt var að prófa. Aftur á móti má benda á að þegar General Motors ákvað að búa til rafbíl, sem úr varð Chevrolet Volt, þá tók það 250 verkfræðinga heil tvö ár að hanna þann bíl og smíða.“ Gísli bætir því við að fyrirmæli hans hafi verið einföld í grunninn. „Tesla Model S átti að vera 7 manna bíll, sem kemst 500 kílómetra á hleðslu, er hraðskreiður og flottur þannig að tekið er eftir honum. Flestir sögðu slíkt ekki vera hægt, en hann fann bara liðið sem taldi þetta vera hægt, og gerði það.“

Byrjað á dýrari endanum

Gísli fer ekki leynt með aðdáun sína á stofnanda og forstjóra Tesla Motors, Elon Musk. „Hann er snillingur sem hugsar einfaldlega ekki eins og annað fólk, ekki ósvipað Steve Jobs. Hann vildi smíða rafbíl frá grunni sem væri í hærri verðflokki, og síðan vildi hann nýta tæknina niður á við. Þetta er hvort sem er dýr tækni og þá er miklu skynsamlegra að setja hana í dýran bíl. Allir aðrir framleiðendur eru að smíða litla bíla sem standast illa samkeppni á sínum markaði því þeir eru oftast mun dýrari en sambærilegir bílar með bensínvél. Tesla ákvað að smíða þá frekar high-end bíl, dýran bíl með dýrri tækni. Þannig gat fyrirtækið búið til bíl, Tesla Model S, með nýrri tækni á sambærilegu verði og sambærilegir bensínbílar. Þannig kostar grunngerðin af Tesla Model S það sama og grunngerðin af Porsche Panamera í Bandaríkjunum.“ Næstu skrefin hjá fyrirtækinu eru að kynna til sögunnar fyrsta Tesla-jeppann, og því næst verður það bíll á verði fyrir hinn almenna bíleiganda. „Eftir þrjú ár kemur svo bíll sem fer 320 kílómetra á hleðslunni, er hugsaður fyrir almenning og mun kosta 35.000 dollara – búinn bestu tækni sem fáanleg er.“

Stuttur afgreiðslufrestur

Hérlendis sem erlendis hafa viðtökurnar við Tesla Model S verið afar jákvæðar og dómar um bílinn lofsamlegir. Það má því gefa sér að eftirspurnin sé talsverð og Gísli tekur undir það. „Það er sex mánaða bið eftir bílum í Evrópu. Ef ég vil hins vegar panta bíla fyrir viðskiptavini sem verða komnir fyrir áramót þá dugar að panta þá fyrir 10. október.“ Aðspurður hvernig standi á þessum sérstaka afgreiðslufresti á jafn litlu markaðssvæði og Ísland í raun er, segir Gísli að ástæðuna megi rekja til þess þegar hann hitti hr. Musk á alþjóðlegu bílasýningunni í Frankfurt árið 2009. Þá fékk Gísli að sögn stuttan fund með frumkvöðlinum, og hafði honum verið uppálagt að vera stuttorður, gagnorður og sérstaklega var honum bent á að nefna ekki neinar óraunhæfar tölur. „Svo ég kynnti mig, sagðist heita Gísli og vera frá Íslandi og ég vildi semja um að selja eitt þúsund Tesla-bíla á tilteknu tímabili. Það leist honum ljómandi vel á, bauð mér að setjast og sagði að við skyldum fara yfir málin. Að spjalli loknu sagði hann sínu fólki að nótera hjá sér að þessi maður hérna skyldi fá þúsund bíla til að selja og hvenær sem ég vildi panta bíl skyldi ég fá hann. Fyrir bragðið nýtur Even þess að vera í talsverðum forgangi, fyrir utan að við erum eina fyrirtækið sem fær að selja bíla fyrir Tesla; á öðrum markaðssvæðum gera þeir það sjálfir. Og þessa þúsund bíla vil ég auðvitað helst selja alla á Íslandi.“

Ekki aftur snúið úr þessu

Flestir telja þá þróun óumflýjanlega að bílar knúnir öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti ryðji sér í auknum mæli til rúms. Í því sambandi hefur sú spurning iðulega vaknað hvort aðgengi sé tryggt að viðkomandi orkugjafa þegar fólk er á ferðinni. Hvernig horfir þetta við rafbílum, að mati Gísla? „Það góða við Tesla Model S er það að hann er ekki háður því að þurfa að hlaða annars staðar en heima hjá sér, því hann fer svo langt á einni hleðslu, eða 500 kílómetra. Það er því hægt að rúlla til Akureyrar í einum rykk án þess að þurfa að stinga í samband á leiðinni. Hvað fjöldann varðar þá eru um 60.000 hleðslustöðvar fyrir hann um land allt, og þá meina ég heimilin í landinu. Svo það er aldrei svo að hleðslustöð sé ekki nálæg. Það sem við erum að vinna að um þessar mundir er að setja upp, með aðgengilegum hætti, venjulegar innstungur og þriggja fasa innstungur. Ef þú kemst í þriggja fasa rafmagn, 16 amper, þá geturðu fullhlaðið þennan bíl á átta klukkutímum. Þá þarftu enga stöð, þannig lagað – þú þarft bara innstungu. Það er auðvelt í uppsetningu og kostar lítið. Fljótlega munum við tilkynna um uppsetningu hleðslustöðva á almannafæri, landið um kring, og þá verður aðgengið ennþá betra.“ Gísli bætir því við að áhyggjur af rafhlöðuendingu séu með öllu óþarfar enda sé 8 ára ábyrgð á þeim; þær muni, ef eitthvað er, lifa bílana sem þær knýja. „Byltingin er hafin, það er á hreinu. Við höfum þurft að bíða dálítið eftir henni, en nú loksins er þetta að fara að gerast.“

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka