Rafbílaframleiðandinn Tesla, sem framleiðir Model S, stefnir á að bæta fleiri bílum í vörulínu sína á næstu árum.
Til að byrja með verður Model X slyddujeppinn kominn í almenna sölu á næsta ári, en mörg þúsund pantanir liggja þegar fyrir.
2016 stendur svo til að bæta við sportlegum bíl í sama flokki og Audi A4, BMW-3 og Mercedes Benz C-class.
Sá bíll er sitt á hvað kallaður BlueStar eða Gen III (fyrir þriðju kynslóðar bíl) og á að kosta helminginn af andvirði Model S. Það þýðir að Íslendingar ættu að geta fengið sportlegan lúxusrafmagnsbíl á 5-7 milljónir, ef hann týnist ekki í skatta- og tollaumhverfinu.
Samhliða þessum áformum stendur svo til að gera aðra útgáfu af Model S, fyrir Kínamarkað, og jafnvel að bæta við öðrum bíl á þann markað, áður en lengra er haldið.
Eftir fimm ár ætlar Elon Musk, framkvæmdastjóri Tesla, svo að snúa sér að Ameríkumarkaði. Í viðleitni sinni til að rafvæða bílaflota heimsins segir hann nauðsynlegt að skoða hvaða bílar njóta mestra vinsælda, og bjóða svo raunhæfan rafbílakost til höfuðs þeim.
Og í Bandaríkjunum er það Ford F-150 pallbíllinn sem er söluhæstur.
Samkvæmt heimildum Carscoops reiknar Musk með að Tesla pallbíllinn (sem gæti til dæmis heitið Model F, svona svo við leggjum okkar að mörkum) verði kominn á markaðinn 2018. Það er þó langt þangað til, svo ekki er útilokað að einhverjar breytingar verði á þeirri áætlun.
Þess ber að geta að myndin sem fylgir er tölvuteikning listamanns, byggð á Model S framenda, en ekki raunveruleg hönnun Tesla.