Með 789 hestöfl úr að spila

Sportbílasmiðja McLaren á Englandi frumsýndi nú í byrjun desember nýjasta liðsmann svonefndrar „Ultimate-línu“; McLaren Senna heitir hann eftir brasilíska ökumanninum Ayrton Senna sem á sínum tíma gerði garðinn frægan með McLaren í formúlu-1.

McLaren Senna er ekki arftaki P1-ofurtvinnbílsins en verður eins og margir aðrir bílar McLaren smíðaður í takmörkuðu upplagi. Verða aðeins 500 slíkir í boði og samkeppnin um þá verður eflaust mikil eins og á við um aðra sportbíla úr smiðju þessari. Í Englandi mun eintakið komið á götuna kosta 750.000 sterlingspund eða sem svarar rétt rúmlega 100 milljónum króna.

Ayrton Senna fórst á sínum tíma í San Marínó-kappakstrinum vorið 1994 en þá ók hann fyrir Williams. Áður hafði hann verið liðsmaður McLaren um fimm ára skeið og landað þremur heimsmeistaratitlum ökumanna. Fékk McLaren leyfi Senna-fjölskyldunnar til að brúka nafn hans í bílheitinu.

Gott hlutfall afls og þyngdar

McLaren Senna er smíðaður með það í huga að honum verði fyrst og fremst ekið á sérstökum æfinga- og keppnisbrautum fyrir bíla, enda lítið með 789 hestöfl á vegum úti að gera á svo litlum og léttum bíl. Allar plötur yfirbyggingarinnar eru úr koltrefjum, sem léttir bílinn, sem vegur 1.200 kíló. Jafngildir það því að afl hans sé 659 hestöfl á tonnið.

Í aflrásinni er að finna afbrigði af tvíforþjappaðri 4,0 lítra V8-vél McLaren og er hún sú öflugasta sem prýtt hefur nokkurn götubíl fyrirtækisins. Við hana er tengd sjö hraða tvíkúpluð skipting. Eflaust mjög eigulegur bíll McLaren Senna. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: