Danskar veikar fyrir frönskum

Danskar konur eru veikar fyrir frönskum bílum. Það sannast ítrekað þegar teknar eru saman upplýsingar um árssölu nýrra bíla. Árið 2017 voru konur skráðar fyrir 18,4% seldra einkabíla sem er 30,7% aukning frá árinu 2016.

Peugeot heillaði þær mest því merkið átti 13,2% hlutdeild í bílakaupum danskra kvenna, sem keyptu alls 5.201 eintak af franska bílnum Peugeot 208. Var hann jafnframt söluhæsta einstaka bílamódelið í heild í Danmörku 2017, seldist í alls 9.838 eintökum. Þrátt fyrir að vera orðinn fimm ára hefur bíllinn aldrei verið vinsælli í Danaveldi.

VW mest selda merkið

Næstvinsælasti bíllinn í Danmörku var Volkswagen Up með 7.232 eintök og í þriðja sæti varð Nissan Qashqai með 7.013 bíla sölu. Endurspeglar Qashqai vöxt í sölu meðalstórra jeppa í Danmörku. Númer tvö í þeim flokki varð Peugeot 3008, sem blaðið Berlingske útnefndi sem jeppa ársins. Keyptu Danir 2.432 slíka og er drottnun Nissan Qashqai því mikil.

Volkswagen var það fólksbílamerki sem seldist best í Danmörku á nýliðnu ári en fleira kemur í ljós þegar rýnt er í sölutölurnar. Alls voru nýskráningar í Danaveldi 221.817 í fyrra eða 1.107 færri en 2016. Er það rakið til tómarúms sem skapaðist á markaði sl. haust vegna langdreginna tilrauna stjórnarflokkanna til að koma sér saman um ný bílagjöld.

Þegar aðeins er horft á sölu einkabíla seldust Peugeot-bílar mest í Danmörku, eða í 13.614 eintökum. Í öðru sæti varð annar franskur bílsmiður, Citroën, með 9.551 bíl og í þriðja sæti Suzuki með 9.174 bíla. Volkswagen er svo í fjórða sæti með 8.906 bíla.

Jeppaflokkarnir bættu við sig

Þegar talin eru bílaviðskipti kaupleigufyrirtækja kemur styrkur Volkswagen í ljós. Seldi það þeim 8.156 bíla, en Peugeot 3.550 og Toyota 2.549. Sé bein sala til einstaklinga og sala til einstaklinga á kaupleigu skoðuð afhenti Peugeot 17.153 einkabíla í fyrra og Volkswagen 17.054.

Miðað við 2016 varð samdráttur í sölu smábíla sem VW Up og Hyundai i10, mínibílum sem VW Polo og meðalstórum bílum á borð við VW Golf og Opel Astra. Vó aukning í sölu á jeppum það upp og gott betur. Smájeppaflokkurinn, þar sem Peugeot 2008 og Renault Captur eru sterkir, stækkaði um 32,4% og nemur nú 8,1% af einkabílamarkaðinum.

Meðalstóri jeppaflokkurinn, þar sem eru fyrir Nissan Qashqai og Peugeot 3008, bætti við sig 28,8% í sölu og er með 12,2% af heildinni. Stórum jeppum á borð við BMW X3 og Volvo XC60 fjölgaði um 15,6% og eru þeir nú 4,5% af markaðinum. Í heild segir þetta að fjórði hver nýr bíll sem seldur var í Danmörku 2017 var jeppi.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: