BL tekur nýtt húsnæði í notkun: Höfuðstöðvar Jaguar Land Rover vígðar

Bifreiðaumboðið BL hefur tekið nýjar höfuðstöðvar Jaguar Land Rover við Hestháls í notkun. Var fjölmenni gesta á fyrsta formlega opnunardeginum sl. laugardag.

Byggingarframkvæmdir vegna þrjú þúsund fermetra sýningarsalar og skrifstofa tóku aðeins sjö mánuði, að sögn Ernu Gísladóttur forstjóra en húsið var byggt eftir ýtrustu kröfum Jaguar Land Rover í Bretlandi.

Fyrir framan húseignina við Hestháls 6-8 þar sem Frumherji var áður með skoðunarstöð byggði BL nýju húseignina sem hýsir nýja og notaða bíla frá Jaguar Land Rover. Þar sem Frumherji var áður er nú verið að taka í notkun nýtt þjónustuverkstæði sem einnig hefur verið aðlagað að stöðlum bílaframleiðandans.

Húsnæðið hýsir einnig standsetningu nýrra bíla auk miðlægs þjónustuvers sem þjónustar fyrirtækið í heild, það er öll tíu merkin sem BL hefur umboð fyrir. Þess má geta að lokum að fulltrúar bílaumboðsins Öskju komu færandi hendi og færðu BL forláta útigrill í tilefni flutninga lúxusmerkjanna Jaguar, Land Rover og Range Rover í nágrennið.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: