Ford boðar 40 raf- og tvinnbíla

Bill Ford (t.h.) stjórnarformaður og James Hackett, forstjóri Ford við …
Bill Ford (t.h.) stjórnarformaður og James Hackett, forstjóri Ford við nýja útgáfu af Ford Ranger, meðalstórum pallbíl sem frumsýndur var í Detroit. AFP

Bandaríski bílrisinn Ford hefur ákveðið að fjárfesta fyrir 11 milljarða dollara á allra næstu árum í rafbílatækni. Stefnir fyrirtækið að því að hafa í boði 40 tvinnbíla og hreina rafbíla frá og með 2022.

Af áætluðu rafdrifnu módelunum 40 verða 16 hreinir rafbílar en 24 tengiltvinnbílar.

Frá þessu skýrði stjórnarformaðurinn Bill Ford á alþjóðlegu bílasýningunni sem hófst í Detroit í Bandaríkjunum í fyrradag, sunnudag. Um er að ræða verulega aukningu á fjárfestingum því áður hafði Ford ákveðið að verja 4,5 milljörðum dollara til rafbílaþróunar fram til 2020.

Fjármununum verður meðal annars varið til þróunar sérlegrar smíðistækni fyrir rafbíla í stað þess að búa til módel knúin jarðefnaeldsneyti með drifrásum rafbíla. Til marks um komandi fjárfestingar var kostnaður Ford við verkfræði-, rannsóknar- og þróunardeildir sínar 7,3 milljarðar dollara árið 2016 og 6,7 milljarðar 2015.

General Motors (GM), Toyota og Volkswagen hafa þegar birt sókndjarfar áætlanir um aukna áherslu á rafbílasmíði. Sérstaklega er þar um bíla að ræða sem skírskota til neytenda sem vilja allt þrennt í senn í einum og sama bílnum, lúxus, mikinn kraft og yfirbyggingu eins og jeppa.

Að sumu leyti hafa bílafyrirtækin með þessari nýju áherslu verið að mæta þrýstingi og kröfum frá yfirvöldum í Kína, Evrópu og Kaliforníu um að draga úr losun gróðurhúsalofts frá bílum sem brenna jarðefnaeldsneyti.

GM sagðist í fyrra myndi koma með 20 ný módel á markað fram til 2023 sem knúðir yrðu rafmagni og/eða vetni. Forstjórinn Mary Barra hefur heitið fjárfestum því að fyrirtækið muni byrja að græða á rafbílasmíði árið 2021.

Volkswagen sagðist í nóvember sl. ætla að verja 40 milljörðum dollar til þróunar og smíð rafbíla, sjálfekinna farartækja og nýjungar í samgöngum fram til ársloka 2022.

Toyota keppist um þessar mundir við að gera nýja byltingarkennda rafgeymatækni að söluvöru á fyrri helmingi næsta áratugar. Vonast japanski bílsmiðurinn til að sú tækni eigi eftir að leiða til verðlækkunar á rafbílum.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: