Tengiltvinnbílar eru hástökkvarar ársins

Hlöður þar sem hlaða má rafbíla spretta hratt upp út …
Hlöður þar sem hlaða má rafbíla spretta hratt upp út um alla Evrópu.

„Það má segja að tengiltvinnbílar séu hástökkvarar milli áranna 2016 – 2017. Helsta ástæða þess er að þeir nýtast flestum notendum sem vilja færa sig yfir í umhverfisvænni bíla, það er bíla sem eru ekki háðir rafmagni eingöngu. Það varð mikil aukning í sölu á bílum sem knúnir eru áfram af rafmagni að hluta eða fullu, bílum sem við köllum umhverfisvæna.“

Minni fólksbílar og jepplingar

Þetta segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins (BGS), í samtali við Morgunblaðið um bílasölu ársins 2017.

„Það er líka aukning í sölu á hreinum rafbílum milli ára en algengt er að fjölskyldur fjárfesti í slíkum bíl sem bíl númer tvö á heimili ef þær búa við þær aðstæður að geta hlaðið bílinn heima,“ bætir Özur við.

Hann segir umhverfisvæna bíla vel samkeppnisfæra við aðra bíla en þeir njóta ákveðinna fríðinda er kemur að gjöldum sem þarf að greiða af bílum til ríkissjóðs.

„Sé horft framhjá þessari flokkun bíla má segja að skipting milli bílgerða sé nokkuð svipuð á milli ára. Áfram njóta minni fólksbílar og jepplingar mikilla vinsælda. Jepplingar henta flestu fjölskyldufólki vel þar sem þar er fólk að fá bíla sem eru oftast rúmgóðir, öruggir og henta íslenskum aðstæðum vel enda vinsælir og fólk teygir sig eftir þeim.“

Meira selt einstaklingum

Hlutfall bílaleigubíla í nýskráningu fólksbíla á árinu 2016 var 44% en í fyrra var það 38%. Özur segir ákveðnar vísbendingar fyrir hendi um að hlutfall bílaleigubíla fari minnkandi af heildarnýskráningum. Í nýliðnum janúar var einstaklingsmarkaðurinn til dæmis rúm 72% af heildinni.

„Einstaklingsmarkaðurinn hefur verið að sækja í sig veðrið á síðustu misserum en endurnýjun bílaflotans hefur að stórum hluta farið í gegnum bílaleigubíla alveg frá árinu 2008. Einstaklingsmarkaðurinn á mikið inni og eru vísbendingar um að hann muni taka stærri hluta af heildarkökunni á þessu ári en á því síðasta. Meðalaldur bíla er hár hér á landi eða um 12 ár en búast má við að hann komi til með að lækka nú þegar einstaklingar fara í auknum mæli að endurnýja fjölskyldubílinn,“ segir Özur.

Bílverð lækkaði 14-18%

Nýir bílar lækkuðu mikið í verði á síðasta ári eða á bilinu 14-18% og Özur segir að það leiði til álíka lækkunar á verði notaðra bíla. „Lækkun á verði nýrra bíla skilar sér í jöfnu hlutfalli inná notaða markaðinn en það tekur aðeins lengri tíma. Við sáum á fyrri hluta síðasta árs að verðbilið milli nýrra og nýlegra bíla var lítið. Hins vegar hefur markaðurinn jafnað sig og er verðbilið milli nýrra og notaðra orðið eðlilegt. Bílasalar innan Bílgreinasambandsins segja að góð hreyfing sé á notaða markaðnum í dag og framboðið gott,“ segir Özur.

Áberandi hefur verið hvað hátt hlutfall nýskráðra bíla hefur farið til bílaleiga í tæpan áratug, frá fjármálahruninu 2008. Özur segir það ekki áhyggjuefni. „Það vantaði þessa bíla inná markaðinn. Það var algjört hrun í bílasölu á árinu 2008 og var endurnýjun flotans langt undir því sem þarf að vera í nokkur ár þar á eftir. Það er fyrst á árinu 2016 sem eðlileg endurnýjun á sér stað að nýju og því er stórt gat sem þurfti að fylla í.

Spáir aukinni förgun

„Ég spái því að það verði fjölgun í förgun gamalla og úr sér genginna bíla á þessu ári en full þörf er á því að losa af götunum gamla óörugga og mengandi bíla sem alltof mikið er af. Hins vegar gerum við okkur grein fyrir því að verði áframhaldandi vöxtur í ferðamannaþjónustu þá gæti skapast það ástand á næstu árum að fjöldi notaðra bílaleigubíla verði vandamál. Það er hlutur sem bæði Bílgreinasambandið og bílaleigurnar munu fylgjast vökulum augum með og bregðast við ef þörf krefur,“ segir Özur.

Hann bætir við að gerð sé krafa af hálfu alþjóðlegu bílaleigumerkjanna um hámarksaldur bíla. Því muni bílaleigur alltaf vera með hátt hlutfall af nýskráningum fólksbíla á meðan ferðamannastraumurinn heldur áfram af sama krafti og verið hefur. „Hins vegar hefur bílaleigum fjölgað sem ekki hafa þá kröfu á sér að bjóða einungis uppá nýja og nýlega bíla og það mun draga að einhverju leyti úr eftirspurn bílaleigna eftir nýjum bílum,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: