Ungfrúin aðeins 1,8 sekúndur í hundraðið

Hann heitir því eðla nafni Miss R, eða ungfrú R, og er sagður snarastur í snúningum allra frækinna ofurbíla. Hann er afurð bílsmiðjunnar Xing Mobility sem er lítið frumkvöðlafyrirtæki á eynni Taívan.

Með rafbílaþróuninni hefur reynst unnt að framleiða framúrskarandi öfluga bíla og nýfyrirtæki hafa mörg hver lagt í þann pott með bílsmíðum sínum.

Miss R er gott dæmi þar um en hann býr yfir eins megavatts afli og er sagður komast úr kyrrstöðu og upp á 100 km/klst ferð á aðeins 1,8 sekúndum.

Til samanburðar er því haldið fram að næsti Roadster, opni sportbíllinn frá Tesla, muni ná 96,5 km/klst ferð úr kyrrstöðu á 1,9 sekúndum. Þá var uppgefið við nýlega frumsýningu Concept Two-ofurbílsins sem Rimac í Króatíu er að þróa að hann muni komast í hundraðið á 1,85 sekúndum með 1,5 megavatta aflrás sinni.

Hröðun af þessu tagi fer að nálgast mörk þess að vera í raun möguleg.

Rafbíll Xing Mobility skilur sig frá hinum tveimur í því að hann er einnig gerður til utanvegaaksturs. Í þeirri uppstillingu, utanvegaham, mætti prófa hann í rallbrautum.

Fyrirtækið Xing Mobility sérhæfir sig í smíði aflrása fyrir atvinnu- og iðnaðarbíla og er tilgangurinn með smíði Miss R fyrst og fremst sá, að sýna fram á þá tæknifærni sem fyrirtækið býr yfir á sviði rafbílasmíði.

Boðar Xing Mobility frumgerð götufærrar Miss R seinna í ár. Við af því taki svo smíði 20 eintaka af bílnum og muni ódýrasta útgáfa hans kosta milljón dollara, eða um 100 milljónir íslenskra.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: