Malbiksholur þjóðarskömm

Félag breskra bifreiðaeigenda segir holótta vegi landsins vera þjóðarskömm. Malbiksholur …
Félag breskra bifreiðaeigenda segir holótta vegi landsins vera þjóðarskömm. Malbiksholur þar í landi skipta milljónum. Ljósmynd/Wikipedia CC

Malbiksholur eru víðar til ama en í Reykjavík. Í vikunni sagði Félag breskra bifreiðaeigenda (AA) malbiksholur á breskum vegum vera þjóðarskömm. Talið er að þar í landi sé minnst rúmlega tvær milljónir hola að finna.   

Samkvæmt rannsóknum AA valda holurnar tjóni á bifreiðum sem kostar að minnsta kosti milljón punda á mánuði, 140 milljónir króna, að gera við.

Tryggingadeild AA segir að bótakröfur vegna malbiksholanna hafi næstum því þrefaldast á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Og við lok nýliðins aprílmánaðar voru kröfur orðnar hærri en fyrir allt árið 2017. Fjöldi krafna var orðinn rúmlega 4.200 og var meðalupphæð viðgerðarreikninganna um þúsund pund, 140 þúsund krónur.

Álitið er að tjón verði á miklu fleiri bílum en eigendur þeirra hirði ekki að sækja um bætur fyrir ónýtt dekk eða beyglaða felgu þar sem þeir myndu tapa afsláttum á iðgjöldum. Það sé  og í raun miklu meira tjón sem óskað er bóta fyrir.

Bætur fyrir líkamstjón eru miklu hærri en fyrir viðgerðir á bílum. Í sýslunni Kent var manni greidd 581.633 pund, jafnvirði um 70 milljóna króna,  fyrir meiðsl sem rakin voru til malbiksholu í bænum Staplehurst 2014. Næst hæsta bótagreiðslan nam 250.000 pundum, um 35 milljónum króna, vegna líkamstjóns í holuslysi í bænum Maidstone.

Heildargreiðslur sýslunnar vegna líkams- og bílatjóna af holuvöldum 2013-2017 námu 1.992.070 pundum eða tæplega 280 milljónir  króna. Alls var 854 einstaklingum bætt tjón af þessu tagi í Kent.

mbl.is