Frumsýna Suzuki Swift Sport

Suzuki Swift Sport hinn nýi, af 2018 árgerðinni.
Suzuki Swift Sport hinn nýi, af 2018 árgerðinni.

Suzuki bílar hf. frumsýnir nýjan Suzuki Swift Sport næstkomandi laugardag, 26. maí , frá klukkan 12-16 í Skeifunni 17.

Swift Sport er með öfluga 140 hestafla hverfilblásna 1,4 lítra BoosterJet vél. Hann er fimm dyra og með sex gíra beinskiptingu. Einnig er bíllinn með sjálfvirkri neyðarhemlun, línuvörn, sex öryggisloftpúðum og ESP stöðugleikakerfi. Uppgefin eldsneytisnotkun er 5,6 lítrar á hundraði að meðaltali.

Swift Sport er ríkulega útbúinn en meðal staðalbúnaðar eru sportsæti, 17 tommu álfelgur, vindskeið, tvöfalt pústkerfi, vönduð hljómtæki með sex hátölurum, sjö tommu margmiðlunarskjá með leiðsögukerfi, bakkmyndavél, AppleCarplay og Android Auto.

Nýjungar í Swift Sport eru meðal annars nýja forþjöppuvélin. Þessi 1,4
lítra, fjögurra strokka vél kemur í stað gömlu, forþjöppulausu 1,6 lítra
vélarinnar. Hestaflafjöldinn er nánast hinn sami en togið er miklu meira. Það eykst úr 160 Newtonmetrum í 230 við 2.300 snúninga.

Bíllinn er líka léttari, eigin þyngd er 975 kg. Sama sex gíra beinskiptingin er í bílnum og áður en tíu prósent minni færsla er milli gíra.

Gestum frumsýningarinnar gefst kostur á að prufukeyra hinn nýja Suzuki Swift Sport, sem samkvæmt upplýsingum frá umboðinu kostar 3.260.000 krónur.

mbl.is