Á kappakstursbrautinni daglega

Hópur íslenskra bíladellumanna efnir reglulega til keppni í vinsælum tölvuleik þar sem upplifunin er nauðalík því að vera á bak við stýrið á alvöru kappakstursbíl. Sextán geta keppt í einu og í lengstu kappökstrunum þarf m.a.s. að skipta um dekk og fylla á bensíntankinn.

„Ég hafði alið með mér þann draum að geta tekið þátt í lengri keppnum, og hafa þær svolítið „alvöru“. Brá ég á það ráð að auglýsa eftir áhugasömum á Facebook og fyrr en varði hafði myndast nokkuð virkur hópur og keppnistímabilið gat hafist,“ segir Guðfinnur Þorvaldsson stofnandi Facebook-hópsins GTS Iceland.

Á tveggja til þriggja vikna fresti heldur hópurinn kappakstra sem fara fram í leiknum Gran Turismo Sport. Þátttakendur taka keppnina alvarlega og er keppt tólf sinnum yfir tímabilið þar sem stigakeppni sker úr um endanlegan sigurvegara. „Aðalsmerki Gran Turismo er að upplifunin sé eins raunveruleg og kostur er. Mikil vinna hefur farið í að láta bílana ekki bara líta mjög sannfærandi út heldur að láta þá líka haga sér eins og þeir myndu gera á kappakstursbrautinni. Fleiri þúsundir breyta ráða því hvernig hver bíll hegðar sér miðað við aðstæðurnar á brautinni hverju sinni, en þrátt fyrir mikla nákvæmni og hátt flækjustig er leikurinn líka þannig gerður að hann býður upp á stillingar sem hjálpa byrjendum svo að hver sem er á að geta byrjað að spila í einum hvelli.“

Fimi frekar en fantaskapur

Í dag eru tæplega þrjátíu manns í Facebook-hópnum og geta að hámarki sextán keppt í einu yfir netið. Guðfinnur segir keppt eftir skýrum reglum sem eru svipaðar þeim sem gilda í akstursíþróttum almennt, og er ekkert sem heitir að aka eins og fantur. Kappaksturinn reynir á fimi, nákvæmni og herkænsku og er refsað fyrir brot eins og að rekast utan í aðra bíla. „Refsikerfi leiksins fylgist með aksturslaginu og gefur leikmönnum tímarefsingu ef þeir t.d. klessa hver utan í annan eða rekast utan í veggi og hindranir umhverfis brautina. Þeir verða þá að hægja ferðina til að taka út sína refsingu ella fá mun hærri tímarefsingu í lok keppninnar,“ útskýrir Guðfinnur. „Það hefur ekki reynt á það til þessa, en ef einhverjum þykir hafa verið harkalega á sér brotið þá eigum við upptöku af öllum kappökstrunum og getum spólað til baka til að skoða hvert atvik.“

Keppendur þurfa að sýna mikla hæfni, gæta þess að fara ekki of hratt inn í beygjurnar og gefa í á hárréttu augnabliki. „Til að sigra þarf að finna réttu línuna í gegnum beygjurnar og aka vel hring eftir hring. Við höldum tímatökur fyrir hverja keppni en margir reka sig á það þegar sjálf keppnin hefst að halda áfram að aka í tímatökuham, eins greitt og þeir geta – en þá gerast mistökin. Lykillinn að árangri er að aka þess í stað af meira öryggi, forðast mistök og slys og þannig vera fyrstur í mark.“

Einnig verður að skipuleggja kappaksturinn vel fyrirfram, velja réttu dekkin, tímasetja dekkjaskipti og stýra því hvers miklu eldsneyti vélin brennir. „Það helsta sem vantar í leikinn er að breytileg veðurskilyrði geti haft áhrif, en margir vonast til að það komi síðar með nýrri uppfærslu,“ upplýsir Guðfinnur.

Nákvæmari stýri

Auðvelt er að stjórna bílnum með venjulegum stýripinna en Guðfinnur, og margir aðrir meðlimir íslenska GTS-hópsins, hafa fjárfest í kappakstursstjórntækjum með stýri, pedölum og öllu tilheyrandi. „Mörgum finnst betra að keppa með þannig búnaði því með pedölum og stýri má gera nákvæmari hreyfingar og þannig ná forskoti í kappakstrinum. Það tekur samt tíma að venjast þessum stjórntækjum og var ég í kringum þrjár eða fjórar vikur að verða jafngóður að aka með stýri og pedölum og ég var áður með stýripinna,“ segir Guðfinnur en bætir við að þeir sem láta stýripinnann nægja standi sig iðulega vel séu vel samkeppnishæfir innan GTS-hópsins.

Góður árangur næst líka ekki öðruvísi en með reglulegum æfingum og reynir Guðfinnur að taka nokkra hringi á kappakstursbrautinni hvern einasta dag. „Í GTS fá leikmenn nýjan bíl í safnið að gjöf ef þeir stunda æfingar daglega, og að auki fást verðlaun fyrir að leysa þrautir og vinna keppni við tölvuna. Þá geta leikmenn att kappi við aðra ökuþóra í sínum heimshluta og haldnir eru kappakstrar oft á dag þar sem leikurinn parar saman fólk með svipaða færni í hörkuspennandi keppni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: