Porsche kaupir sig inn í Rimac

Þýski sportbílaframleiðandinn Porsche hefur keypt sig inn í króatísku bílsmiðjuna Rimac Automobili sem framleiðir ofurbíla. Eignast Porsche og sama hlut í dótturfélaginu Greyp sem framleiðir rafknúin reiðhjól.

Kaupverð hlutarins liggur ekki á lausu en með kaupunum er opnað á samstarf við þróun bæði bíla og reiðhjóla sem stefnt er á markaðssyllu ofurafkastamikilla bifreiða og hjóla.

Mate Rimac, stofnandi og framkvæmdastjóri Rimac Automobili segir í tilefni samninganna að það sé lífstíðar verkefni að þróa og smíða ofursportbíla og fyrirtækið eigi enn langt í land. Að ganga til þróunarsamstarfs við Porsche sé mikilvægt skref í þá átt að verða lykilframleiðandi  á markaði fyrir tveggja sæta ofursportbíla eins og „Concept One“ og „C Two“.

Þess má geta, að Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, heimsótti verksmiðjur Rimac í Króatíu haustið 2016 og reynslukeyrði Concept One rafbílsins. Skrifaði hann um aksturinn í bílablaði Morgunblaðsins.

mbl.is