„Leiksvæði“ fyrir dollaragrínin

Þeir sem hyggjast ganga í nýjan einkaklúbb áhugamanna um hraðakstur verða vera moldríkir því einungis aðildargjaldið að klúbbnum er 350.000 dollarar, eða jafnvirði um 37 milljónir íslenskra króna.

Ráðgert er að svonefndur Concours Club opni í maí 2019 við einkaþotuflugvöllinn Miami-Opa Locka Executive Airport. Á klúbbsvæðinu verður rúmlega 3ja kílómetra löng kappakstursbraut og í klúbbhúsinu verður meðal annars sundlaug, vatnsnudd, vín- og vindlakjallari, veitingastaður og bar og full þjónusta við bíla. Þá verður þar bílageymsla fyrir bíla sem verður fyrst og fremst ekið á brautinni en ekki þjóðvegum.

Innifalið í verðinu er aðgangur að öllum þessum þægindum klúbbhússins og brautinni. Það er fasteignafyrirtæki sem stendur að baki uppbyggingu á lóð klúbbsins en þar er um að ræða 220 milljóna dollara fjárfestingu. Hönnun mannvirkja og allrar aðstöðu miðast við að klúbbsfélagar dvelji sem lengst á svæðinu þegar þeir heimsækja það.

Stofnfélagar verða 40 og verður þar um útvalda einstaklinga að ræða. Hver og einn þeirra þarf að reiða fram 350.000 dollara í félagsgjald. Engin árgjöld koma þar ofan á. Þessir einstaklingar geta síðan boðið vinum eða samstarfsmönnum séraðild sem kostar 125.000 dollara. Hún verður takmörkuð við 150 manns og þurfa þeir að auki borga sérstakt árgjald á hverju ári. Þá er í ráði að opna fyrir fyrirtækjaaðild seinna meir.
 
Sumum kann að þykja þetta miklar fjárhæðir en að sögn Bloomberg fréttastofunnar er gjöldin sambærileg við einkabrautir annars staðar í Bandaríkjunum. Svo sem Thermal Club við Palm Springs í Kaliforníu og  Monticello Motor Club í Hudson Valley norðarlega í New York ríki. Og gjaldið er lægra en bílar væntanlegra klúbbfélaga kosta. Stofnfélagar verða aðallega auðugir bílasafnarar innanlands sem utan og veltengdir kappakstursáhugamenn. Í bílskúrum þeirra er að finna bíla á borð við Pagani Zonda sem kostar 1,4 milljónir dollara og Koenigsegg Agera sem er öllu dýrari, kostar 2,1 milljón dollara, um 225 milljónir króna.

mbl.is