Hóta að svara bílatollum Trump

Í samsetningarsmiðju Peugeot, 208 bílar á færibandi.
Í samsetningarsmiðju Peugeot, 208 bílar á færibandi. AFP

Hótanir Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að tolla innflutning á evrópskum bifreiðum hefur lagst illa í evrópsk stjórnvöld sem hóta gagnaðgerðum.

Gagnaðgerðirnar kveða á toll á bandarískum vörum sem fluttar eru til ESB-landanna. Upphæð þeirra yrði 294 milljarðar dollara, að sögn fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB.  Svavar það til 19% af öllum útflutningi Bandaríkjanna til Evrópu.

Trump hefur hótað að leggja 25% toll á evrópska bíla og varahluti. Segir í bréfi ESB til bandarískra stjórnvalda, að gagnaðgerðirnar, ef til þeirra þyrfti að koma, myndu skaða nokkur svið bandarísks hagkerfis. Myndu aðgerðirnar hafa aukin neikvæð áhrif á verga landsframleiðslu. Þær myndu bitna á sölu bandarískra bíla í Evrópu.
 
„Bandarísk viðskiptapólitík er til tjóns fyrir milliríkjaverslun, hagvöxt og atvinnulíf í Bandaríkjunum. Hún skaðar vinabönd og dregur athyglina frá hinum raunverulega efnahagsvanda,“ segir ESB.

mbl.is