Kia Niro mun draga 450 km

Kia Niro EV.
Kia Niro EV.

Kia kynnti nýjan Kia Niro EV sem er hreinn rafbíll á bílasýningunni í Busan í Suður-Kóreu. Bíllinn verður formlega frumsýndur á alþjóðlegu bílasýningunni í París í haust en hann mun koma á markað í byrjun næsta árs.

Þetta er ný útgáfa af Kia Niro EV sem fæst nú þegar í tvinn- og tengiltvinnútfærslum.

Kia Niro EV er með nýjum og tæknivæddum 64 kWh litíumrafhlöðupakka sem skilar bílnum rúmum 200 hestöflum og drægi upp á alls 450 km. Kia Niro EV mun einnig vera fáanlegur í útfærslu þar sem drægið er 300 km og litíum rafhlaðan 39,2 kWh. 

Sá bíll verður með rafmótor uppá 150 hestöfl. Drægið miðast við bestu hugsanlegu aðstæður samkvæmt upplýsingum frá suður-kóreska bílaframleiðandanum og nýjustu reglur við mælingar á drægi (WLTP).

„Kia Niro EV er með engan útblástur þannig að um er að ræða bæði afar umhverfisvænan og og hagkvæman bíl. Þetta er annar hreini rafbíllinn sem Kia framleiðir en fyrir er rafbíllinn Kia Soul EV. Kia Niro EV er hannaður í hönnunarstöðvum Kia í Kaliforníu og Namyang í Suður-Kóreu,“ segir í tilkynningu.

Kia mun bjóða 16 rafknúna bíla árið 2025 sem verða hreinir rafbílar, eða tvinn- eða tengiltvinnútfærslum. Þá hyggst Kia kynna fyrsta vetnisknúna bíl fyrirtækisins árið 2020.

mbl.is