Tandurhreinn bíll í tólf skrefum

Að hreinsa felgurnar er erfiðis- og nákvæmnisvinna og notar Sylvía …
Að hreinsa felgurnar er erfiðis- og nákvæmnisvinna og notar Sylvía koll svo hún þreytist síður. Ljósmynd/Anton Agnarsson

„Ég og bræður mínir höfðum lengi talað um að skapa okkur vinnu með því að þvo bíla. Þeir gerðu samt aldrei neitt í því svo ég lét bara vaða sjálf,“ segir Sylvía Björk Jónsdóttir sem rekur Bílaþvott Sylvíu á Akranesi (facebook.com/bilathvottursylviu).

Sylvía var rétt nýkomin með bílpróf þegar hún hóf reksturinn en í dag er hún 23 ára gömul og þvær bíla á milli þess sem hún sinnir móðurhlutverkinu af krafti, en hún á tveggja ára gamla dóttur. „Bílaþvotturinn var ágætis tekjulind fyrir mig meðfram skóla en núna er þetta mitt aðalstarf á meðan ég hugleiði hvað mig langar að leggja fyrir mig í háskóla,“ segir Sylvía en hún lauk stúdentsprófi frá náttúrufræðibraut Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og tók í framhaldinu stutta syrpu í hjúkrunarfræði við HA áður en hún komst að því að áhuginn liggur einhvers staðar annars staðar.

Hver veit nema Sylvía snúi sér að bílatengdu námi. Í það minnsta skortir hana ekki bílaáhugann og fékk hún bíladelluna í vöggugjöf. „Afi minn heitinn og móðurbróðir gerðu upp Chevrolet Bel Air 1957 fornbíl sem er í dag ættargersemi og hluti af allstóru safni stórfjölskyldunnar af alls konar bílum. Pabbi er líka með mikla bíladellu, bræður mínir sömuleiðis, og einnig kærastinn,“ segir Sylvía og minnist þess hvernig henni var innrætt það sem barn að umgangast bíla af virðingu. „Við systkinin fengum t.d. aldrei að borða í bílnum enda getur því fylgt sóðaskapur. Svo lærðum við það snemma af pabba hvernig á að þrífa bíla vel og vandlega.“

Eftirspurnin eftir þjónustu Sylvíu er svo mikil að hún er oft bókuð marga daga og jafnvel nokkrar vikur fram í tímann. „Ég reyni að taka mér frí um helgar, enda hvíldin nauðsynleg. Annríkið getur verið breytilegt eftir árstímum og veðurfari, og þegar kemur glampandi sól og gott veður vilja allir vera á hreinum bíl. Veturinn er rólegri, en samt alveg nóg að gera allt árið um kring.“

Sylvía leggur mikinn metnað í þrifin og gætir þess að hvergi gleymist óhreinn blettur. „Þetta er gefandi starf, og mjög ánægjulegt að sjá muninn á bílunum eftir að búið er að taka þá í gegn,“ segir Sylvía og bætir við að hún fái iðulega til sín bíla sem eru mjög skítugir og hafi verið sáralítið þvegnir eða bónaðir. „Eitt af því sem gleður mig mest er þegar viðskiptavinurinn ætlaði sér upphaflega að selja ökutækið, en hættir svo við þegar hann sér hvað bíllinn er orðinn fallegur þegar hann er loksins orðinn glansandi hreinn og fínn.“

Svona þrífur Sylvía bílinn:

Sylvia fimm ára gömul og harðdugleg að hjálpa til við …
Sylvia fimm ára gömul og harðdugleg að hjálpa til við að þvo bílinn hans föður síns. Ljósmynd/Jón Bjarni Gíslason


1.
fyrst af öllu þarf að velja góðan stað til að þvo. Best er að þvo bíla innandyra við gott hitastig og undir kröftugum ljósum svo að óhreinindin sjáist vel.

2. Byrjað er á að skola mestu óhreinindin í burtu. Vatnsbunan má ekki vera of kröftug, né of veik og notar Sylvía venjulega garðslöngu með byssu til að stýra kraftinum.

3. Næst er að sápuþvo bílinn hátt og lágt. Sylvía notar n.k. þvottahanska úr svampi sem hún stingur höndinni inn í og strýkur svo með yfir allt ytra byrði bílsins. Hún notar volduga fötu með grind í botninum og nuddar hanskanum utan í grindina svo að sandur og aðrar agnir losna af og falli til botns. Hún endar á að sápuþvo felgurnar og notar til þess annan svamp.

Betra er að nota vatn sem er volgt eða heitt og hjálpar líka að skipta bílnum niður í nokkra fleti og sápuþvo hvern flöt og skola með vatni áður en haldið er áfram með þann næsta. Þannig má koma í veg fyrir að sápan þorni á lakkinu og skilji eftir bletti.

4. Því næst fjarlægir Sylvía motturnar úr bílnum, skolar þær og sápuþvær með bursta. Bera má næringarefni á motturnar eftir að þær hafa þornað til að gefa yfirborðinu djúpan og dökkan lit.

5. Bíllinn fær tækifæri til að þorna á meðan motturnar eru þrifnar og er þá orðið tímabært að tjöruhreinsa. Sylvía úðar tjöruhreinsi á bílinn allan; frá þaki niður að felgum. Hún leyfir tjöruhreinsinum að standa í nokkrar mínútur og notar svo tusku til að strjúka burtu þau óhreinindi sem tjöruhreinsirinn losar, og gætir þess í leiðinni að hvergi loði klesstar flugur við bílinn.

Hún strýkur einnig úr hurðarfölsum og í kringum skottlokið, og setur eftir atvikum felguhreinsi á felgurnar til viðbótar við tjöruhreinsinn.

6. Að þrífa felgur er erfið og þreytandi vinna og passar Sylvía upp á að hafa eitthvað mjúkt og vatshelt til að sitja á meðan hún skrúbbar felgurnar í bak og fyrir með bursta og tusku. Óhreinindi eins og bremsuryk loða kirfilega við felgurnar og getur tekið tíma að skrúbba í burtu. Hér, eins og í öllum öðrum skrefum bílaþvottarins, sparar Sylvía ekki efnin heldur lætur þau vinna fyrir sig.

7. Nú skolar Sylvía bílinn aftur og þurrkar með vaskaskinni. Hún ber því næst á hreinsibón frá Meguiar‘s sem bæði gefur góða bónáferð og fjarlægir óhreinindi sem enn kunna að sitja eftir. Sylvíu þykir best að nota bónpúða og bera bónið á í hringjum. Bónið má ekki sitja of lengi á því þá verður erfiðara að nudda það af. Eftir stutta bið nuddar hún bónið með tusku og til að ná fram fallegum gljáa.

8. Felgurnar eru líka bónaðar, og verndandi efni borið á plastlista til að gefa þeim dökkan og fallegan lit á ný.

9. Næst er að ryksuga, og gott að nota kraftmikla ryksugu með góðum teppabankara og mjóum stútum. Stútana má nota til að ryksuga göt og glufur og hjá betri seljendum bílahreinsiefna má finna sérstaka bursta úr gúmmíefni sem ná burtu hundahárum sem oft sitja iðulega föst í sætum og teppum. Ef þess þarf eru sætin djúphreinsuð, en annars er röðin komin að rúðunum.

10. Til að þrífa rúðurnar að innan setur Sylvía vatn og ögn af uppþvottalegi í fötu og pússar rúðuna hreina með fínni tusku. Rúðan er þegar orðin hrein að utan, rétt eins og bíllinn, en þar ber hún á Rain-X í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda.

11. Loks blandar Sylvía vatn með bakteríudrepandi hreinsiefni sem gefur ferska lykt, vætir klút og strýkur yfir leður, plast og aðra fleti í farþegarýminu.

12. Síðasta skrefið er að bera glans á dekkin til að setja punktinn yfir i-ið. Vitaskuld má glansinn aðeins fara á hliðar dekkjanna til að hafa ekki áhrif á gripið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: