Bjóða bifreiðaeigendum ólöglega þjónustu

Að sögn Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra FÍB, er verið að bjóða …
Að sögn Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra FÍB, er verið að bjóða upp á að fjarlægja mengunarvarnarbúnað úr bifreiðum hér á landi. mbl.is/Golli

„Með þessu er verið að kippa úr sambandi búnaði sem með lögum ætti að vera virkur,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, um þjónustu sem tvö fyrirtæki hér á landi hófu nýverið að bjóða bifreiðaeigendum.

Í auglýsingum fyrirtækjanna, Kraftkorta og Bílaforritunar, kemur fram að hægt sé að endurforrita vélartölvur ökutækja sem muni skila sér í meira afli og minni eldsneytiseyðslu. Þá er um leið boðið upp á þann valkost að kippa mengunarvarnarbúnaði bifreiðanna úr sambandi.

„Samkvæmt því sem fram kemur í auglýsingum þeirra er hægt að forrita bílana þannig að engin athugasemd komi upp þrátt fyrir að búið sé að aftengja mengunarvarnabúnaðinn. Þá erum við að tala um varnir eins og sótagnasíu, AD-blue hreinsibúnað og EGR ventla. Til útskýringar tekur sótagnarsía um 90% af óæskilegum sótefnum sem talin eru mjög hættuleg fyrir öndunarveg. Þá er EGR búnaði ætlað að draga úr koltvísýringi og vinnur þannig að skynjarar meta hversu mengaður útblásturinn er. Þetta er því allt gríðarlega mikilvægur mengunarvarnarbúnaður,“ segir Runólfur.

Bannað að fjarlægja búnað

Þrátt fyrir að bjóða upp á fyrrgreinda þjónustu kemur fram á vef Bílaforritunar að það að fjarlægja mengunarvarnarbúnað geti verið ólöglegt í mörgum Evrópulöndum, þar á meðal Íslandi. Þá segir ennfremur á síðunni að bannað sé með lögum að fjarlægja mengunarvarnarbúnað á ökutæki sem er með götuskráningu hér á landi. Runólfur segist furða sig á því að verið sé að bjóða upp á þjónustu sem svo greinilega er ólögleg. „Það er nú bara svoleiðis að það verða alltaf til kerfisfræðingar á gráum svæðum. Fyrir utan það að vera ólöglegt veit maður ekkert hvaða áhrif þetta hefur á vélina og slitþætti hennar,“ segir Runólfur og bætir við að það hafi áhrif á verksmiðjuábyrgð ökutækis að fjarlægja mengunarvarnarbúnað. „Þessir aðilar hafa sagt að þetta hafi engin áhrif á verksmiðjuábyrgð bílsins en það er ekki rétt,“ segir Runólfur.

Spurður um hversu mörgum bifreiðum hafi verið breytt hér á landi segir Runólfur erfitt að átta sig á því. Það sé þó eflaust töluverður fjöldi enda standi þjónustan til boða víða um land. „Ég veit að þessir menn hafa verið á ferðinni um dreifðari byggðir. Þá veit ég til þess að þeir hafi ekki einungis verið að breyta bílum heldur líka ýmsum landbúnaðartækjum,“ segir Runólfur.

Tekið verði upp nýtt verklag

Til að bregðast við mikilli fjölgun bifreiða þar sem mengunarvarnarbúnaður hefur verið fjarlægður sendi Samgöngustofa nýverið frá sér yfirlýsingu. Þar kom fram að taka ætti upp nýtt vinnulag sem miðaði að því að auka líkurnar á því að upp kæmist ef búið væri að fjarlægja mengunarvarnarbúnað bifreiða. „Þeir sendu fyrir skömmu frá sér yfirlýsingu þess efnis að taka ætti upp nýtt verklag þannig að þetta muni komast upp. Þetta hefur hins vegar verið í skoðanahandbók sem gefin hefur verið út í Evrópu um gerð og búnað bifreiða og ætti því ekki að koma neinum í opna skjöldu,“ segir Runólfur.

Morgunblaðið setti sig í samband við stjórnendur hjá Kraftkortum og Bílaforritun sem báðir sögðust ekki bjóða upp á þá þjónustu að fjarlægja mengunarvarnabúnað úr bílum. Gísli Rúnar hjá Bílaforritun sagði fyrirtækið hafa boðið upp á hugbúnaðarbreytingu en fjarlægðu aldrei mengunarvarnabúnað. Guðmundur hjá Kraftkortum sagðist hvorki hafa búnað né aðstöðu til að fjarlægja mengunarvarnarbúnað úr bílum, og byði ekki upp á þá þjónustu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: