Volkswagen Polo í sérflokki

Maruti Dzire-stallbakurinn er byggður á annarri kynslóð Suzuki Swift-hlaðbaksins.
Maruti Dzire-stallbakurinn er byggður á annarri kynslóð Suzuki Swift-hlaðbaksins.

Volkswagen Polo er söluhæsti smábíllinn í veröldinni fyrri hluta yfirstandandi árs. Í öðru sæti er Renault Clio og í því þriðja Toyota Yaris.

Um er að ræða bíla sem eru milli 3,5 og 4,1 metri að lengd, en í Evrópu er það í meginatriðum ámóta stærðargeiranum B.

Einungis er um stall-, hlað- og langbaka að ræða. Hvorki jeppar né  fjölnotabílar (MPV) sem falla innan þessara stærðarmarka eru teknir með í dæmið.
 
Volkswagen Polo hefur umtalsverða yfirburði í sölu. Á götuna komu af honum  samtals 375.590 eintök frá áramótum til júníloka. Af Clio komu 226.041 eintak, af Yaris 198.234, af Peugeot 208 166.887 eintök, af Renault Captur 149.011 eintök, af Honda Fit 148.204, af Hyundai i20 141.948 eintök, af Maruti Dzire 140.441 eintak og af Citroen C3 136.328 bílar.

Maruti Dzire er hástökkvari ársins en nýskráð voru af þessum bíl 73,7% fleiri bílar í ár en á fyrri helming síðasta árs. Um er að ræða stallbak sem fyrirtækið Maruti Suzuki hefur smíðað fyrir indverskan markað eingöngu frá 2008. Núverandi kynslóð bílsins kom á götuna í fyrra, 2017, og  er sú þriðja. Er bíllinn nokkurs konar afbrigði af annarri kynslóð Suzuki Swift-hlaðbaksins.

Næstmest aukning varð í sölu Renault Captur, eða um 12,8%, og næstmestur samdráttur var í sölu Ford Fiesta, eða 5,2%.

mbl.is