Hefja forsölu á rafbílnum Kia Niro EV

Nýi hreini rafbíllinn Kia Niro EV.
Nýi hreini rafbíllinn Kia Niro EV.

Forsala er hafin á nýjum Kia Niro EV hjá bílaumboðinu Öskju. Hann státar af mengunarlausum rafmótor, notagildi jepplings, snjöllum lausnum í innréttingum og laglegri útlitshönnun. Akstursdrægið er allt að 450 km skv. nýjum WLTP staðli, sem setur hann í flokk þeirra rafbíla sem hafa hvað mesta drægni í heiminum.

Nýi rafdrifni Niro EV bíllinn er viðbót við tvinn- (Hybrid) og tengiltvinnútfærslur (Plug-in Hybrid)  bílsins sem hafa selst í meira en 200.000 eintökum frá því Niro kom á markað árið 2016. Niro hefur verið vinsæll hér á landi undanfarna mánuði í báðum þessum útfærslum.

„Við búumst við því að nýr og 100% rafdrifinn Niro EV hljóti afar góðar viðtökur Þess vegna setjum við af stað þessa forsölu til að ná sem best utan um þetta skemmtilega verkefni. Niro mun einnig fást áfram í  Hybrid og Plug-in Hybrid útfærslunum vinsælu. Kia er að ná forystu á rafbílamarkaðinum því að fáir framleiðendur bjóða upp á viðlíka úrval rafbíla. Í lok þessa árs verða á boðstólnum tvær gerðir tvinnbíla, þrjár gerðir tengiltvinnbíla og tvær gerðir 100% rafbíla þannig að alls verðum við með sjö mismunandi útfærslur af rafknúnum Kia bílum hér hjá Öskju. Og það er meira á leiðinni á komandi misserum,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, í tilkynningu.

Kia hefur fengið yfir 5.000 forpantanir á Niro EV í Kóreu frá því bíllinn var fyrst sýndur þar fyrr á þessu ári, auk þess sem forsala í Noregi hefur farið vel af stað. Nýi bíllinn verður frumsýndur í Evrópu á bílasýningunni í París í október og sala hefst síðan í árslok 2018 en nú er hægt að forpanta hann hjá Öskju. Pöntunargjaldið er 77.777 kr. en gjaldið er um leið innborgun á bifreiðina. Tölurnar 7 vísa til sjö ára ábyrgðar Kia á öllum bílum sínum.

Hægt að panta bílinn á niro.kia.is og ákveði viðskiptavinur að hætta við kaupin, fær hann fulla endurgreiðslu.

Niro EV kemur með 64 kWh litíum-pólymer rafhlöðu sem býður upp á allt að 450 km mengunarlaust akstursdrægi í einni hleðslu. Það tekur 54 mínútur að ná 80% hleðslu í gegnum 100 kW hleðslustöð.

Einnig verður boðið upp á Niro EV með 39,2 kWh rafhlöðu sem er með allt að 300 km drægi. Niro EV er framhjóladrifinn en rafmótorinn fyrir stærri rafhlöðuna er 204 hestöfl. Rafmótorinn fyrir minni rafhlöðuna er 136 hestöfl. Togið er 395 Nm úr kyrrstöðu og er hann aðeins 7,8 sekúndur frá 0 í 100km/klst.

mbl.is