Með minnstu loftmótstöðuna

Nýr Mercedes Benz A-klass stallbakur sem frumsýndur verður á heimsvísu á bílasýningunni í París í byrjun október mun státa af tveimur sérstökum metum.

Hönnun nýja bílsins er í samræmi við þá stíla sem ráð og hafa ráðið ferðinni í bílsmiðjunni í Stuttgart, en Mercedes hefur  lagt sig fram um að bæta straumfræði bíla sinna undanfarin ár.

Einkar skilvirk hönnun yfirbyggingar bílsins skilar sér í lægri loftviðnámsstuðli en áður þekkist í raðsmíðuðum bílum. Svonefndur Cd-stuðull er aðeins 0,22 sem er meira að segja betri árangur en hjá CLA-bílnum sem átti gamla stuðulsmetið, 0,25.

Heildar rúmmál framenda nýja A-klass stallbaksins er einnig minna en í tilviki CLA, eða 2,19 rúmmetrar. Stuðlar það að lægra loftviðnámi og þar með skilvirkari eldsneytisnotkun.  

Þess má svo geta, að útbúnaður bíls, vélargerð og dekkjaval hefur áhrif á loftviðnámsstuðulinn, og er 0,22 sá besti mögulegi fyrir bílinn.

Fyrst um sinn mun Mercedes Benz A-klass stallbakurinn bjóðast  með annað hvort einni gerð bensínvélar eða einni gerð dísilvélar. Í báðum tilvikum tengjast þær nýjum sjö hraða gírkassa úr smiðju Mercedes.

Í 180-bílnum verður 1,5 lítra dísilvél úr mótorsmiðju Renault er býður upp á 116 hestöfl og 260 Newtonmetra tog. Í 200-bílnum verður hverfilblásin 1,3 lítra bensínvél frá Mercedes, 163 hestafla og með 250 Nm togi.   

mbl.is