Hreinorkubílar verði 100 þúsund árið 2030

Nis­s­an Leaf raf­bíll frá BL. Hrein­orku­bíl­um þarf að fjölga.
Nis­s­an Leaf raf­bíll frá BL. Hrein­orku­bíl­um þarf að fjölga. mbl.is/​Val­g­arður Gísla­son

Hreinorkubílar þurfa að vera orðnir um 100 þúsund talsins fyrir árið 2030 svo að Íslendingar muni ná að uppfylla kröfur Parísarsamkomulagsins sem undirritað var af íslenskum stjórnvöldum árið 2015.

Íslendingar hafa þrengra svið að vinna með til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis heldur en aðrar þjóðir enda öll raforkuframleiðsla og húshitun hér með kolefnislausum orkugjöfum. Því þarf að vinna með samgöngur og þar skiptir bílafloti landsmanna sköpum. Í dag er fjöldi hreinorkubíla um 9 þúsund og mikið verk því enn óunnið. Þetta segir Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, í ViðskiptaMogganum.

Hreinorkubílar 3,9% af flota

Íslendingar eru framarlega á sviði rafbílavæðingar og í öðru sæti á heimsvísu á eftir Norðmönnum. Sem stendur eru hreinorkubílar um 3,9% af fólksbílafjölda í heild sinni hér á landi sem telur um 227 þúsund bíla. Af hreinorkubílum eru tengiltvinnbílar, rúmlega 5 þúsund eða um 2%, rafbílar, 2295 eða um 1% og metanbílar 1508 eða um 0,7%. Bensínbílar eru aftur á móti 142 þúsund, um 63% af fólksbílaflotanum og dísilbílar 76 þúsund, um 34%. „Það eru um 8 þúsund bílar sem hægt er að stinga í samband. 2500 hreinir rafbílar og restin tengiltvinnbílar. Þetta þarf að fara að snúast meira rafbílum í hag og þeir þurfa að vera orðnir afgerandi hluti af nýskráningum undir lok þessa tímabils, 2030. Sem er alveg gerlegt, miðað við hvað er að gerast í bílamarkaðnum, bæði í verði, fjölbreytileika og tegundum,“ segir Sigurður við ViðskiptaMoggann.

Sigurður segir að rafbílar séu nú yfir 40% af öllum nýskráningum í Noregi og á það þurfi Íslendingar einnig að stefna. Segir hann að 95% þeirra fólksbíla sem eru á götunni í dag verði horfnir eftir 12 ár. Þeir bílar sem verða nýskráðir í dag séu aftur á móti líklegir til þess að vera enn úti á götu árið 2030. Hlutfall nýskráðra hreinorkubíla af heildarfjölda nýskráninga þurfi því að hækka sem fyrst. „Þeir bílar sem skráðir eru frá og með deginum í dag eru býsna líklegir til að vera enn í bókhaldinu 2030 þegar „skuldadagar“ koma. Núna fer að skipta verulegu máli hvaða bílar fara að koma nýir inn. En þetta þarf að gerast hraðar,“ segir Sigurður. Árið 2017 nam hlutfall hreinorkubíla af nýskráningum bifreiða um 13% samkvæmt gögnum Orkuseturs. Að sögn Sigurðar stefnir í að hlutfallið verði svipað fyrir árið 2018.

Samkvæmt þingsályktunartillögu ríkisstjórnar frá því í maí 2017 kemur fram að stefnt sé að því að hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum verði um 40% árið 2030 en það hlutfall nam 6% í fyrra af samgöngum á landi.

Almenningur lengra kominn

Stór hlutdeild bílaleigubíla í fólksbílaflota landsins er aftur á móti ákveðinn flöskuháls og lækkar hlutfall nýskráðra hreinorkubíla töluvert en hlutfall nýskráðra hreinorkubíla er um 15-20% hjá almenningi að sögn Sigurðar. „Á Íslandi er helmingur nýskráninga á fólksbílum bílaleigubílar. Almenningur er kominn lengra á veg en bílaleigurnar og það er vont fyrir fólksbílaflotann,“ segir Sigurður og bendir á að bílaleigubílarnir fari svo á eftirmarkað. Spurður um stöðu innviða í landinu þegar kemur að rafbílanotkun segir Sigurður þá vel á veg komna en auðvitað þurfi að gera betur.

„Það er hægt að fara hringinn um landið og á flesta staði á hraðhleðslum,“ segir Sigurður. Bendir hann á að drægniviðmið rafbíla sé nú um 200-500 km og að næstu viðfangsefni séu meðal annars að gera aðstæður fyrir rafbíla aðgengilegri við fjölbýlishús.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: