Musso og Rexton forsýndir í Fífunni um helgina

Verðlaunajeppinn SsangYong Rexton verður forsýndur ásamt stallbróður sínum Musso í  Fífunni, Kópavogi, frá og með morgundeginum, föstudeginum 14. september til sunnudags.

Verða bílarnir tveir sýndir á 35 ára afmælissýningu Ferðaklúbbsins 4X4 í Fífunni. Þar verða yfir 100 ferðajeppar klúbbfélaga einnig til sýnis auk þess sem fjölmörg fyrirtæki verða með kynningu á því nýjasta sem þau hafa að bjóða.

Nýverið var tilkynnt um val sérfræðinga tímaritsins 4X4 Magazine á besta fjórhjóladrifna bílnum 2018. Þar varð Rexton jeppinn hlutskarpastur. Á meðal bíla sem Rexton atti kappi við má nefna Jeep Wrangler JK, Mercedes-Benz G-Class og Toyota Land Cruiser.

„Margir landsmenn eiga góðar minningar um hörkutólið Musso sem sló öll sölumet hérlendis á árunum 1995 til 2001, en þá var framleiðslu hans hætt. Musso jepparnir eru ennþá áberandi í umferðinni og hundruðir Íslendinga eru í hópi áhugamanna um Musso á Facebook, þó rúm 20 ár séu liðin síðan þeir komu til landsins,“ segir í tilkynningu.

Margir hafa átt þá ósk að framleiðsla á Musso hæfist á ný. Það hefur nú ræst. Er hann hlaðinn staðalbúnaði og annar SsangYong ekki eftirspurn eftir nýja Musso.

Báðir jepparnir, Rexton og Musso, eru væntanlegir í sölu hérlendis um áramótin, samkvæmt upplýsingum fra Bílabúð Benna, umboði fyrir SsangYong á Íslandi.

mbl.is