Opel sýnir inn í framtíðina

PSA Peugeot Citroen hefur  birt mynd af nýjum litlum hugmyndajeppa Opel. Útlitið er sagt verða í sama dúr fyrir aðra Opelbíla í framtíðinni.

GTX Experimental er vinnuheiti bílsins sem verður knúinn  rafmagni. Hann verður búinn nýmóðins tækni, meðal annars hvað varðar ljósa- og öryggisbúnað.

Um er að ræða dæmigerðan smájeppa að stærð; rétt rúmlega fjögurra metra langur, 183 sm á breidd og öxulbilið 262,5 sm. Staðsetur hann sig að stærð í miðri framboðsflórunni í jeppaflokki, svipar stallbróður sínum Ampera-e að málum.

Undirvagninn er nýr og af léttari gerðinni. Í samræmi við áform um að Opel smíði einungis rafbíla frá og með 2024 er GT X rafdrifinn og rafgeymir verður af næstu kynslóð 50 kWh litíumjónageyma.

Loks verður bíllinn búinn þriðju gráðu sjálfaksturstækni. Hún leyfir að bíllinn sjái alveg um aksturinn en ökumaður verði að sitja í sæti bílstjóra til að grípa inn ef þörf krefur.

Rafvæðing bíla Opel mun eiga sér jafnt og þétt stað en fyrirtækið stefnir að því að 40% Opelmodela í sölu árið 2021 verði jeppar.

Hermt er að með GT X Experimental sýni bílsmiðurinn í fyrsta sinn svonefnt „Opel Compass“ hönnunarmál sem einkenna muni bíla merkisins stafnanna á milli í framtíðinni.  

Nafnið nýja þróunarbílsins skírskotar aftur til ársins 1965 er Opel sýndi hugmyndabílinn  X Experimental. Var bílsmiðurinn fyrstur allra í Evrópu ti lað smíða og sýna þróunarbíl. Varð hann grundvöllur að hinum upphaflega Opel GT.

mbl.is