Snjóplógur setti hraðamet

Valtra T234 dráttarvélin í metakstrinum.
Valtra T234 dráttarvélin í metakstrinum.

Hér hefur öðru hverju verið sagt frá hinum ólíklegustu uppátækjum mannsins þegar farartæki og hraði er annars vegar. Austur í Finnlandi hefur ómönnuð dráttarvél með snjóplóg sett óvenjulegt heimsmet.

Dráttarvélin var af gerðinni Valtra T234 sem meðal annars var söluhæsti traktorinn í Noregi í fyrra. Hún var sérlega undirbúin undir mettilraunina og var til að mynda enginn ökumaður um borð; öllu var fjarstýrt. Undir henni voru sérlega gerð stór og breið dekk sem buðu upp á mikla rásfestu.

Í tilraununum sem fram fóru á snævi þakinni flugbraut skammt frá bænum Vuojärvi var snjórinn plægður á löngum beinum kafla. Niðurstaðan var einstaklega afkastamikil og skilvirk snjóhreinsun á 73,171 km/klst hraða. 

Sjá má metaksturinn í meðfylgjandi myndskeiði:

mbl.is