Hrun í bílasölu eftir að krónan gaf eftir

Krónan ræður miklu um bílasöluna.
Krónan ræður miklu um bílasöluna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, áætlar að sala nýrra fólksbíla hafi dregist saman um 30% síðustu 3-4 vikur. Samdrátturinn hafi hafist eftir að gengi krónu fór að gefa eftir í sumarlok. Sala til bílaleiga er meðtalin en hlutur hennar í heildarsölunni hefur farið minnkandi.

Miðgengi evru er nú 137 krónur, borið saman við 123 krónur í byrjun ágúst. Innkaupsverð á bíl sem kostar til dæmis 20 þúsund evrur hefur því hækkað um 280 þúsund í krónum.

Samdrátturinn verður meiri

Að sögn Egils var útlit fyrir 13% samdrátt í bílasölu milli ára áður en þessi samdráttur hófst. Árið 2017 var metár í bílasölu á Íslandi. Seldust þá alls um 22 þúsund fólksbílar, að bílaleigubílum meðtöldum.

Egill segir nú útlit fyrir að samdrátturinn milli ára verði umtalsvert meiri en 13%. Árið 2018 líti nú ekki nærri jafn vel út og spáð var. Þannig sé nú útlit fyrir álíka mikla bílasölu 2018 og 2019. Það séu tíðindi því árið 2019 hafi samkvæmt spám átt að vera mun lakara en þetta ár í sölu.

„Svona gengisbreytingar hafa strax áhrif á verð nýrra bíla. Allir bílar eru keyptir inn í erlendri mynt. Það hefur því bein áhrif á verð bíla að gengi krónu veikist. Innkaupsverð er enda mjög hátt hlutfall af útsöluverðinu,“ segir Egill.

Hann segir Brimborg þegar hafa hækkað verð á hluta nýrra bíla. Verð notaðra bíla muni einnig hækka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina