Scala í stað Rapid

Rapid er á útleið og í staðinn teflir Skoda fram nýju vopni í Golf-klassanum, bíl að nafni Scala. Er nafninu ætlað að skírskota til þess að bíllinn verði veglegri en Rapid og því ekki sérlega billegur.

Scala er ætlað að reiða hátt til höggs en í flokknum hefur stallbróðirinn Golf notið mikillar forystu. Slík er bjartsýnin í herbúðum Skoda, að forstjórinn Bernhard maier segist sannfærður um að Scala eigi eftir að skapa ný viðmið í flokki smábíla. 

Að tækni- og öryggisbúnaði tekur Scala forveranum Rapid fram og útlits- og innanrýmishönnunin er smekklegri. Í honum verður framúrstefnulegur búnaður, eins og sagt er,  sem sóttur er í miklu dýrari bíla Volkswagen-samsteypunnar. Hefur þó ekki verið útskýrt hver þessi nýstárlega tækni er.

Áætlanir miða við að Skoda Scala komi á götuna á næsta ár, 2019.

mbl.is