Umferðin eykst enn þótt hægi á vextinum

Á árinu hefur umferðin aukist mest á Suðurlandi eða um …
Á árinu hefur umferðin aukist mest á Suðurlandi eða um 7,7% en minnst um Norðurland eða um 2,0%. mbl.is/RAX

Þótt hægt hafi á aukningu bílaumferðar um þjóðvegi landsins er hún þó enn að vaxa. Mælingar Vegagerðarinnar leiða í ljós að umferðin á hringveginum jókst um þrjú prósent í síðasta mánuði. Það er minnsta aukning í októbermánuði síðan árið 2012.

„Þrátt fyrir það er útlit fyrir að í ár aukist umferðin á hringveginum að jafnaði um 4,5 prósent. Mest hefur hún í ár aukist um Suðurland eða um tæp átta prósent en minnst um Norðurland eða um tvö prósent,“ segir í frétt á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Athyglisvert er að bera saman bílaumferðina eftir landshlutum en tölur Vegagerðarinnar eru fengnar úr 16 lykilteljurum á hringveginum. Fram kemur í umfjöllun Vegagerðarinnar að mest jókst umferðin í nýliðnum mánuði yfir teljarasnið á Austurlandi eða um rúmlega 8% en athygli veki að talsverður samdráttur varð í sniðum á Norðurlandi eða rúmlega 4%.

,,Mest jókst umferðin yfir teljarasnið í Lóni á Austurlandi eða tæp 17% en fáséður samdráttur varð yfir öll teljarasnið á Norðurlandi og mest yfir Mývatnsheiði eða tæplega 11% samdráttur,“ segir í umfjölluninni.

Í umfjöllun um breytingar í umferðinni í Morgunblaðinu í dag kemur m.a. fram, að tölur úr 16 lykilteljurum Vegagerðarinnar á hringveginum sýna hversu gríðarlega umferðin hefur aukist á umliðnum árum. Samanlögð meðalumferð á dag í nýliðnum októbermánuði var komin í 82.302 bíla samanborið við 50.923 á dag árið 2013 svo dæmi sé tekið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: