Lögreglan fær fljúgandi mótorhjól

Þyrlufarið sem lögreglan í Dúbaí tekur senn í notkun.
Þyrlufarið sem lögreglan í Dúbaí tekur senn í notkun.

Lögreglan í Dúbaí er fræg fyrir að í bílaflota hennar eru nær eingöngu afar hraðskreiðir  lúxusbílar. Dugir ekkert minna til að halda öllu í röð og reglu í umferðinni enda fátt annarra bíla þar en ofurskjótra sportbíla.

Í flota lögreglunnar er að finna meðal annars sportbíla af gerðunum Aventador, Veyron og Ferrari. En nú ætlar lögreglan að fara á hærra svið. 

Hinum tæknivæddu laganna vörðum finnst gott mega bæta og því hefur lögreglulið Dúbaí tekið nýjan farkost og skilvirkan, sem nefna mætti hangflugu, en á ensku heitir fyrirbærið „hoverbike“. Minnir það helst á fljúgandi mótorhjól eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.

Þessir 116 kílóa fararskjótar verða ekki fullbúnir til notkunar við lögreglustörf fyrr en árið 2020, þeir  eru enn í þróunarferli. Framleiðandi er bandaríska fyrirtækið Hoversurf og er flygildið með skel úr koltrefjaefnum og fjórum snúðþyrlum sem gerir flug í allt að fimm metra hæð yfir jörðu kleift. Hámarks flughraði flygildisins er 100 km/klst. Það er knúið 12,3 kílóvattstunda rafgeymi sem dugar til 10 til 25 mínútna flugs, eftir þyngd og veðuraðstæðum.

mbl.is