Veltir í nýjum húsakynnum

Veltishúsið nýja í Hádegismóum.
Veltishúsið nýja í Hádegismóum.

Um helgina verður opnunarhátíð fyrir glænýjar höfuðstöðvar Veltis, Volvo atvinnutækjasviðs Brimborgar, laugardag og sunnudag frá 12-16 að Hádegismóum 8 í Árbæ. Um helgina verður einnig stórsýning á Volvo atvinnubílum og atvinnutækjum.

Nýja Veltishúsið er sérhannað fyrir þjónustu við Volvo atvinnubíla og atvinnutæki. „Í húsakynnunum er glæsilegasta og best tækjum búna verkstæði landsins ásamt fullkomnu vöruhúsi og bestu mögulegu vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk. Staðsetningin að Hádegismóum 8 er frábær í útjaðri Reykjavíkur þar sem aðgengi frá stofnbrautum er mjög gott og nóg rými utandyra,“ segir í tilkynningu.

Með nýrri þjónustumiðstöð er tekið í notkun ný vöruhúsa- og strikamerkjakerfi ásamt 11 metra háum vöruturni sem gerir allt varahlutaflæði þægilegt. Í turninum eru núna um 4.000 vörur og með tímanum skynjar turninn vinsælustu vörurnar og raðar þá hillum með vinsælustu vörunum næst opi turnsins og flýtir þannig fyrir varahlutaflæði.

Í einni  viðgerðagryfju á verkstæðinu er einn fullkomnasti bremsuprófunarbúnaður sem völ er á markaðnum, segir í t ilkynningu Veltis. Í þessari sömu gryfju eru einnig öflugar hristiplötur sem gera kleift að sjá betur slit í hjólabúnaði vörubifreiða. Kemur þessi búnaður til með að virka vel með fullkomnum hjólastillingarbúnaði sem þjónustumiðstöðin hefur nýlega tekið í notkun.

Eins og að framan segir stendur opnunarhátíð Veltis og stórsýning á Volvo atvinnubílum og atvinnutækjum bæði laugardag og sunnudag,  frá 12-16 að Hádegismóum 8 í Árbæ.

mbl.is