Nýr Kia e-Soul frumsýndur í LA

Myndin eina af Kia Soul rafjeppanum sem birt hefur verið.
Myndin eina af Kia Soul rafjeppanum sem birt hefur verið.

Nýr Kia e-Soul rafbíll verður frumsýndur á bílasýningunni í Los Angeles síðar í mánuðinum. Ný kynslóð e-Soul verður talsvert breytt í hönnun sem og aksturseiginleikum frá núverandi rafbíl Soul EV.

Spenna ríkir fyrir komu bílsins en einungis ein mynd hefur verið birt opinberlega af honum enn sem komið er. Kia mun láta meiri upplýsingar í té þegar hulunni verður svipt af bílnum í Los Angeles.

Kia segir að hönnun nýja bílsins sé nútímaleg og djörf og verður bíllinn mjög vel búinn helsta tækni- og öryggisbúnaði. Suður-kóreski bílaframleiðandinn hefur einnig bætt aksturseiginleika bílsins enn frekar. Nýr e-Soul er 100% rafbíll og hefur því engan útblástur. Drægi bílsins er 485 km við bestu skilyrði.

Kia Soul EV hefur notið mikilla vinsælda síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir fjórum árum. Ekki er búist við öðru en að arftaki hans e-Soul verði einnig vinsæll. Eins og forverinn verður e-Soul nettur fjölnotabíll og er hábyggðari en fólksbílar af svipaðri stærð sem þýðir að auðvelt er að stíga inn og út úr honum auk þess sem sætin eru há og útsýni gott.

Kia er einnig að kynna e-Niro til leiks sem einnig verður 100% rafbíll.

mbl.is