Líkindi Dacia Duster og Mustang

Duster jafn mikilvægur Dacia og Mustang er fyrir Ford.
Duster jafn mikilvægur Dacia og Mustang er fyrir Ford.

Bandaríski bílavefurinn Motor1 vitnaði nýlega til umfjöllunar Autocar sem fjallaði nýlega um vinsældir sem Dacia Duster nýtur meðal almennings í Evrópu. Motor1 fræddi lesendur sína í Norður Ameríku um Duster sem þarlendir neytendur kannast lítt eða ekkert við nema af afspurn enda bíllinn ekki á markaði Norður-Ameríku og auk þess ekki búinn átta strokka vél sem margir Ameríkanar kjósa helst undir húddið.

Blaðamaðurinn sagði frá rúmenska framleiðandanum sem nú væri í eigu Renault og því hversu vinsælir bílarnir frá Dacia væru vegna styrkleika, lágrar bilanatíðni og hagstæðs verðs. Gat hann þess í leiðinni að Duster hefði m.a. verið tilefndur til verðlaunanna „World Car of the Year award 2019“.

„Þótt hann sé mest seldi bíll Dacia er Duster ekki kraftmikill bíll,“ segir blaðamaður Motor1 og útskýrir fyrir lesendum að Duster sé „hefðbundinn jepplingur með góðu farþegarými og vali um bensín- og dísilvélar með túrbínu. En á hann eitthvað skylt við Mustang,“ spyr blaðamaður.

„Ef þú spyrð Renault, já! Er það ekki augljóst?“ Að mati yfirhönnuðar Renault, Laurens van den Acker, er Duster jafn mikilvægur Dacia og Mustang er fyrir Ford. „Duster er í raun þekktara vörumerki en Dacia,“ sagði Acker.

Í tilkynningu segir, að á síðasta ári seldi Dacia meira en 460 þúsund bíla og þar af voru um 146 þúsund Duster. Á fyrstu átta mánuðum þessa árs voru tæplega 131 þúsund Duster afhentir eigendum sínum sem þýðir að mun fleiri slíkur verði seldir á þessu ári heldur en 2017.

Dacia kynnti í byrjun nóvember nýja 1,3 lítra bensínvél við túrbínu fyrir framdrifinn Duster, annars vegar 130 hestafla og hins vegar 150 og hestöfl. Gert er ráð fyrir að Dacia bjóði vélina með fjórhjóladrifnum Duster frá og með næsta vori og fljótlega upp úr því hjá BL einnig.

mbl.is

Bloggað um fréttina