Nærri helmingur notar síma undir stýri

Hlutfall landsmanna sem nota farsíma undir stýri fyrir símtöl án …
Hlutfall landsmanna sem nota farsíma undir stýri fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar hefur lækkað með hverri mælingu.

Hátt í helmingur landsmanna, 49%, segist hafa notað farsíma undir stýri fyrir símtöl með handfrjálsum búnaði á síðustu tólf mánuðum, en 34% segjast hafa talað í síma við akstur án handfrjáls búnaðar.

Sextán prósent sögðust hafa notað farsíma undir stýri til þess að skrifa eða lesa smáskilaboð, tölvupóst eða önnur skilaboð við akstur. Þetta kemur fram í könnun MMR á farsímanotkun landsmanna undir stýri, en 1.048 svöruðu könnuninni í nóvember.

Notkun á handfrjálsum búnaði eykst

Hlutfall landsmanna sem nota farsíma undir stýri fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar hefur lækkað með hverri mælingu frá 2010, að því er segir í tilkynningu, og er nú í fyrsta sinn lægra en hlutfall þeirra sem nota farsíma fyrir símtöl undir stýri með handfrjálsum búnaði.

Karlar reyndust líklegri en konur til þess að segjast hafa nota farsíma fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar.

Þá voru svarendur í yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára, líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast hafa tekið símtöl án handfrjáls búnaðar, notað leiðsögukort og skrifað eða lesið skilaboð undir stýri.

mbl.is