Mörg er raunin Nissan jepplinga

Mikið er lagt á jepplinga Nissan við þróun þeirra. Úr …
Mikið er lagt á jepplinga Nissan við þróun þeirra. Úr þessum bíl er feykifagurt útsýni.

„Það er ekki víst að söngkonan Mariah Carey viti það, en hún gegnir m.a. lykilhlutverki við þróun jepplinganna frá Nissan sem sameina í senn hagkvæmni fólksbílsins og torfærugetu jeppans þar sem ökumaður og farþegar sitja hátt og njóta útsýnisins úr bílnum.“

Þannig hljómar upphaf tilkynningar þar sem greint er frá því hvað jepplingar frá Nissan þurfa að ganga í gegnum á þróunarferli sínu. Tekið er fram að jafn mikilvægu hlutverki gegni  skógarbirnir, eldfjallaaska og fjölbreytt úrval bolla og flaskna frá öllum heimshornum, svo nokkur dæmi séu tekin.

„Það þarf nefnilega að taka mið af ólíklegustu atriðum við verkfræðilega þróun sportjeppa, hvort sem um er að ræða X-Trail, Juke eða Qashqai, því hönnuðirnir freista þess ávallt að líkja sem best eftir öllum þeim mögulegu raunum sem bílarnir ganga í gegnum á líftíma sínum og stundum eru umfram fyrirhugaða getu. Einungis þannig verða til áreiðanlegir bílar sem eigendurnir eiga að geta treyst. 

Sem dæmi má nefna Nissan Qashqai, fyrsta sportjeppann á Evrópumarkaði. Frá því hann fór í sölu 2007 hafa verkfræðingar Nissan framkvæmt meira en 150 þúsund þróunarprófanir á honum, Juke og X-Trail í því augnamiði að gera góða bíla enn betri. En hvernig blandast skógarbirnir, flöskur, bollar og aska inn í málið?

⦁    Eldfjallaaska hefur hlutverki að gegna við þróun gæða bílrúðanna gegn rispum og höggum og til að tryggja að rafknúinn vindubúnaður hliðarrúðanna þoli öskuna.

⦁    Áður en rafmótorar rúðuþurrknanna fara á markað þurfa þeir að ganga stöðugt í 480 klukkustundir á mismunandi hraðastillingum þar sem líkt er eftir ólíkum veðuraðstæðum á borð við rigningu, slyddu og snjókomu. Á prófunartímanum fara rúðuþurrkurnar 2,5 milljón sinnum fram og til baka á rúðunni.

⦁    Á hljómflutningskerfi bílanna er leikin mjög hátt tónlist með Mariah Carey, teknótónlist ýmiss konar ásamt fleiri tónlistargerðum á mismunandi tíðnistillingum, allt frá hátíðni Carey til dýpstu bassa teknótónlistarinnar til að reyna gæðin til hins ýtrasta á tækin.

⦁    Þungir hlutir eru látnir falla úr hæð á glerþök bílanna til að ganga úr skugga um að styrkur glersins sé nægur til að þola harða árekstra. Þyngd hlutanna sem eru notaðir er sambærileg þeirri og ef fullvaxinn skógarbjörn klifraði upp á bílþakið. Það vill svo til að viðskiptavinum Nissan í þeim löndum sem birnir eru algengir í náttúrunni finnst þetta atriði mjög traustvekjandi.

⦁    Hinar ýmsu bolla- og flöskustærðir gegna svo því hlutverki að ganga úr skugga um að þær stærðir sem algengar eru í mismunandi löndum og menningarsamfélögum passi allar í haldarana í mismunandi bílgerðum Nissan, segir í tilkynningunni fróðlegu.

Ábendingar kærkomnar

Trú sannfæringu sinni um að stöðugt megi bæta góða hluti er því ávallt fagnað hjá Nissan þegar ábendingar og tillögur að betri lausnum koma fram sem komið geta viðskiptavinunum vel. Þess vegna var t.d. hönnun flöskugeymslunnar í framhurðum Qashqai breytt ekki alls fyrir löngu þegar í ljós kom að mjög vinsælt drykkjarílát í Japan fyrir grænt te passaði ekki í hurðirnar.



 

Það er í mörg horn að líta og margar tölvur …
Það er í mörg horn að líta og margar tölvur að grufla við þróun bíla Nissan. Hefur stafræn tækni vaxið mjög við þá starfsemi.
Mikið er lagt upp úr því að statíf fyrir kaffibolla …
Mikið er lagt upp úr því að statíf fyrir kaffibolla og drykkjarílát skili hlutverki sínu með sóma.
Þrír öflugir jeppar frá Nissan, X-Trail, Juke og Qashqai.
Þrír öflugir jeppar frá Nissan, X-Trail, Juke og Qashqai.
mbl.is