WLTP-reglur valda vanda

Bílasala Audi hefur hrunið í október og nóvember.
Bílasala Audi hefur hrunið í október og nóvember.

Breytingar á mengunarstaðli vegna útblásturs bíla sem tóku gildi 1. september í Evrópu hafa bitnað hart á bílasölu í Þýskalandi. Hefur til að mynda bílasala Audi og Porsche hrunið.

Í tilviki Porsche dróst salan saman um 74% í nóvember og 62% í október. Audi seldi 64% færri bíla í nóvember  og samdrátturinn var hinn sami í október.  

Hjá Volkswagen skruppu nýskráningar saman um 19% og samdráttur varð í sölu bæði Skoda og Seat, merkja í eigu VW-samsteypunnar. Þá fækkaði seldum bílum Nissan í Þýskalandi um rúm 50% og um 36% færri bíla seldu bæði Renault og Land Rover, en því munu aðrar orsakir hafa ráðið en  WLTP.

Í heildina dróst  bílasala saman um 9,9% í Þýskalandi í nóvember. Var skerfur bensínbíla í markaðinum 60% en seldum bensínbílum fækkaði um 12,5%. Skerfur dísilbíla var 34% en hafði minnkað um 10%.  Tvinnbílar voru 4,3% markaðarins en sala þeirra jókst um 34,7% miðað við nóvember 2017.

Mest varð aukningin í sölu hreinna rafbíla í Þýskalandi eða 41%. Hlutur þeirra í heildarmarkaðinum er þó enn sem komið ekki nema 1,6%.

Ekki urðu allir bílsmiðir fyrir samdrætti í Þýskalandi í október og nóvember. Jókst til að mynda sala Mitsubishi, BMW og Volvo á tímabilinu.

mbl.is