Suzuki bílar kynna breyttan Vitara

Hinn nýi Suzuki Vitara verður frumsýndur hjá Suzuki bílum laugardaginn …
Hinn nýi Suzuki Vitara verður frumsýndur hjá Suzuki bílum laugardaginn 12. janúar nk.

Suzuki bílar frumsýna nýjan Vitara sportjeppa næstkomandi laugardag, 12. janúar, í húsakynnum sínum í Skeifunni, frá klukkan 12 til 16.

Vitara kom fyrst á markað fyrir meira en 25 árum. Hin nýja kynslóð bílsins er með kraftmiklum og sparneytnum 1,0 og og 1,4 lítra Booster Jet vélum og enn meiri öryggisbúnaði.

Í tilkynningun segir að Vitara uppfylli nútímakröfur um sparneytni, akstursgetu og þægindi. Hann státi af stílhreinni hönnun en um leið öllum einkennum sportjeppa með fjölbreytta notkunarmöguleika.

 Vitara kemur með 4WD Allgrip fjórhjóladrifskerfi sem býður upp á fjórar mismunandi stillingar, þ.e. sjálfvirka stillingu, sportstillingu, snjóstillingu og driflæsingu.

Vitara er með Apple CarPlay og MirrorLink. Tengiskjár snjallsímans, SLD, nýtir sér Apple CarPlay og MirrorLink. Þegar samhæfður iPhone er tengdur kerfinu með USB tengingu gerir Apple CarPlay notandanum kleift að hringja og svara símhringingum, spila tónlist úr símanum, senda og taka á móti skilaboðum og fá leiðarlýsingu, allt með raddskipunum eða fingrasnertingu á skjánum.

Að sama skapi birtir MirrorLink hin ýmsu smáforrit snjallsímans á snertiskjánum og þannig er hægt að nýta sér aðgerðir símans í gegnum skjáinn. Margmiðlunaraðgerðir eru gerðar einfaldar á 7 tommu snertiskjánum. Aðgerðirnar varða m.a. hljómtæki, handfrjálsan síma, leiðsögukerfi og uppsetningu snjallsímans.

Vitara er með skriðstilli með fjarlægðarskynjara. Vitara GLX kemur með bakkmyndavél sem varpar upp mynd af umhverfinu aftan við bílinn á skjáinn. Þannig verður útsýnið aftur með bílnum skýrara þegar honum er bakkað. Hann er með leiðsögukerfi með SD korti, þrívíddar kortaleiðsögn sem auðvelt er að fylgja eftir á skjánum.

Vitara fékk fullt hús stiga, fimm stjörnur, í árekstrarprófun öryggisstofnunarinnar Euro NCAP. Hann fékk hæstu einkunn í öllum fjórum helstu prófunarþáttunum, þ.e. fyrir öryggi farþega, öryggi barnungra farþega, öryggi annarra vegfarenda og akstursstoðkerfi sem stuðla að auknu öryggi. Kröfurnar sem þarf að uppfylla á þessu sviði eru strangari en nokkru sinni áður.

Samkvæmt upplýsingum frá Suzuki bílum er verðið á Vitara frá 4.090.000 krónum.

mbl.is