Nýr BMW X5 kynntur hjá BL

BL kynnir nýjan fjórhjóladrifinn sportjeppa, BMW X5, laugardaginn 12. janúar
BL kynnir nýjan fjórhjóladrifinn sportjeppa, BMW X5, laugardaginn 12. janúar

Næstkomandi laugardag, 12. janúar,  milli klukkan 12 og 16 kynnir BL við Sævarhöfða nýja útgáfu af fjórhjóladrifna sportjeppanum BMW X5 sem nú er betur búinn en nokkru sinn fyrr af hálfu framleiðandans.

Auk nýs útlits og aukins vals um fjölbreyttan búnað býður BMW einnig uppfærðar bensín- og dísilvélar og eru þrjár í boði hjá BL; tvær TwinPower túrbó dísilvélar og ein TwinPower túrbó bensínvél sem allar eru þriggja lítra við átta gíra Steptronic sjálfskiptingu. Vélarnar eru á
bilinu frá 265-400 hestöfl og er hröðun X5 frá 0-100 km/klst. á bilinu 5,2 til 6,5 sekúndur efir því hvaða útgáfa bílsins er valin. Nýr BMW X5 kostar frá 11.890 þúsundum króna, að því er fram kemur á heimasíðu BL.

Hinn nýi BMW X5 er heldur stærri en forverinn og á það við um flest mál og veghæð er örlítið meiri en áður til að auka drifgetu auk þess sem bíllinn er búinn sjálfvirkri spólvörn og í afturöxli er sjálfvirk driflæsing sem lagar sig sjálf að aðstæðum.

Þrátt fyrir stærri bíl er nýr X5 um 100 kg léttari eða á bilinu 2132-2350 kg og fer eftir útgáfu og búnaði mismunandi gerða. Þá er eyðsla X5 aðeins frá sex lítrum 100/km að meðaltali (X5 30d xDrive) í samræmi við mælistaðal WLTP. Dráttargetan er allt að 3,5 tonn, sem er sambærileg við getu algengustu pallbíla.

Meðal nýjunga í staðalbúnaði X5 að utan má nefna að allur ljósabúnaður bílsins er búinn díóðutækninni hvort sem ræðir um dagsljós eða aðalljós framan og aftan. Þá eru allar rúður skyggðar til varnar sól og hita. Af öðrum búnaði má nefna upphitaða rúðupissstúta, þakboga, glanskrómaða umgjörð á grilli, málmlakk, állista með satínáferð við hliðarglugga, grjóthlífar undir bílnum framan og aftan og upphitaða hliðarspegla með glýjuvörn svo nokkuð sé nefnt. Þá eru framljósin sjálfvirk í myrkri með tilliti til umferðar á móti, hemlaljós eru sjálfvirk og þegar heim er komið loga framljósin á meðan ökumaður og farþegar ganga heim að dyrum.

Hanskahólfið búið kælingu

Í farþegarými X5 eru nú kominn 12,3“ háskerpulitaskjár þar sem meðal annars er að finna leiðsögukerfi fyrir Ísland og hægt er að birta kort í mælaborði án þess að virkja leiðsögukerfið. Hægt er að stýra ýmsum stjórnbúnaði X5 með bendistjórnun og raddstýra síma og afþreyingarkerfinu sem er með Hi-Fi hátalarakerfi með 205 W
magnara og 10 hátölurum. Mismunandi USB-tengingar eru við hendina við fram- og aftursæti auk farangursrýmis og hægt er að tengja harðan disk við kerfið. Þá er X5 búinn þráðlausri símahleðslu.

BMW X5 er búinn vönduðum leðurklæddum sportsætum, framsætin eru rafdrifin og sæti ökumanns er með fjölbreyttum minnisstillingum. Stýrið er rafstillanlegt, hiti er í armpúðum framsæta auk þess sem X5 er vel lýstur. Í því sambandi má nefna lesljós, upplýsta sílsalista, ljós í framgólfi, hanskahólfi, miðjustokki og farangursrými og hægt er að velja um mismunandi stemningslýsingu í hurðum, gólfi og miðjustokki. Þá má nefna að hanskahólfið er búið kælingu. Að lokum má nefna að nýr BMW X5 er búinn öllum fremsta forvarnar- og öryggisbúnaði BMW.

mbl.is