Þýskir lungnalæknar gagnrýna dísilbann

Baráttunni gegn banni eða takmörkun við akstri dísilbíla hefur vaxið …
Baráttunni gegn banni eða takmörkun við akstri dísilbíla hefur vaxið fiskur um hrygg síðustu vikur í Þýskalandi. Hér er banni mótmælt í Stuttgart 2. febrúar sl. „Díselökumenn spyrna við fótum“ stendur á fremsta skiltinu.

Rúmlega eitthundrað þýskir læknar með lungnasjúkdóma sem sérgrein lýsa efasemdum um meinta hættu af nituroxíði og rykögnum í útblæstri dísilbíla. Hefur það orðið til að hleypa nýjum krafti í umræður um hvort minnka eða hætta skuli framleiðslu dísilbíla – og hvort takmarka beri akstur eldri dísilbíla.

Læknarnir skrifuðu undir yfirlýsingu þessa efnis sem birtist í þýskum fjölmiðlum síðla í nýliðnum janúar. Fyrrverandi formaður þýsku lungnasamtakanna DGP, Dieter Köhler, gekk gegn núverandi afstöðu samtakanna með því að segja að draga mætti í efa niðurstöður flestra rannsókna á hættunni af dísilútblæstri.

DGP birti í nóvemberlok sl. langa viðvörun um heilsufarshættu af völdum nituroxíðs (NO2). Grundvallaðist hún á niðurstöðum rannsókna hinnar virtu stofnunar á sviði umhverfislækninga, Helmholtz Institute, þess efnis að nituroxíð væri alvarleg heilsufarsógn, jafnvel þótt styrkur þess væri hlutfallslega lítill, eða hinn sami og núverandi viðmið upp á 40 míkrógrömm á rúmmetra lofts eru.

Engu dauðsfalli valdið

Köhler keypti þetta ekki og sagði við útvarpsstöðina NDR: „Núverandi viðmið fyrir NO2 og öreindaryk eru algjörlega skaðlaus og hafa ekki valdið einu einasta dauðsfalli.“ Núverandi forseti DGP, lungnalæknirinn Klaus Rabe í Hamborg, játti því við NRD-stöðina að mikil skoðanaskipti ættu sér stað um hætturnar af útblæstri dísilbíla. Hann sagði að læknar sem væru á öndverðum meiði við félagið væru mun fleiri en talið var. Félagsmenn eru um 4.000.

Ágreiningur sérfræðinganna gæti átt eftir að hafa mikil áhrif á umræður um dísilhneykslið frá 2015 sem kennt hefur verið við Volkswagen sem kom blekkingarbúnaði fyrir í aflrás bíla sinna um árabili til þess að villa um fyrir mengunarmælingum. Var það framferði talið ólöglegt.

Akstursbann fengið með dómi

Afleiðingar gjörða VW hafa m.a. leitt til þess að þýskir dómstólar hafa lagt bann við akstri eldri dísilbíla í mörgum bæjum og borgum landsins, þar á meðal í Frankfurt, Hamborg og Berlín. Voru þessi bönn byggð á viðmiðum Evrópusambandsins (ESB) um hámark nituroxíðs og rykagna í lofti, en þau takmörk voru oft sniðgengin í þýskum borgum.

Í byrjun febrúar var í heimabæ Mercedes-Benz og Porsche í Stuttgart lagt bann við akstri eldri dísilbíla. Yfirlæknir sjúkrahúss Rauða krossins í borginni, Martin Hetzel, tekur undir gagnrýni Köhler í samtali við NDR: „Í spítalanum finnurðu enga lungna- eða hjartasjúkdóma sem rykagnir eða nituroxíð hafa valdið.“ Hinn litli styrkur mengunarefna geti „hreint ekki valdið heilsutjóni og dauðsföllum eins og fram er haldið,“ bætti hann við.

Þessi óvænta gagnrýni málsmetandi lungnalækna hefur hljómað vel í eyrum bílaframleiðenda, meðal annarra hagsmunasamtaka. Með skírskotun til málsins hvatti hið öfluga félag þýskra bíleigenda (ADAC) ESB til að endurskoða mengunarmörk sín. Samtök bílsmiða, VDA, hvatti svo til þess að spilin yrðu lögð á borðið um áhrif nituroxíðs í andrúmsloftinu. „Því fleiri staðreyndir sem lagðar verða fram í umræðunni, því betra,“ sögðu þau.

Sitja fast við sinn keip

Forstöðumaður Helmholtz-rannsóknarstofunnar í München, sem fæst við umhverfisáhrif á heilsufar, Annette Peters, hnykkir hins vegar á niðurstöðum athugana stofnunar sinnar sem gerðar voru fyrir umhverfisstofnun Þýskalands. Tjáði hún NDR að rekja mætti andlát 6.000 manns á ári til dísilgufunnar.

Þýska umhverfisstofnunin heldur einnig fast við þá afstöðu sína að dísilgufurnar geti valdið ótímabæru andláti þúsunda manna á ári. _Með hverjum tíu míkrógrömmum nituroxíðs í rúmmetra lofts stækkar sá hópur fólks sem vissir sjúkdómar ná takinu á, svo sem hjarta- og æðasjúkdómar,“ sagði Wolfgang Straff, sérfræðingur stofnunarinnar í læknisfræði, við NDR.

Í annarri rannsókn sem ekki hefur verið birt og gerð var af Max Planck efnafræðistofnuninni, er komist að þeirri niðurstöðu að rykagnir valdi um 120.000 ótímabærum dauðsföllum á ári í Þýskalandi einu og sér. Er það tvöfalt meiri fjöldi en Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) studdist við árið 2017.

Ráðherra fagnar

Þýski samgönguráðherrann, Andreas Scheuer, hefur látið mál þetta til sín taka. Hann segir innlegg læknanna mikilvægt og tímabært. „Hin vísindalega nálgun hefur nægan þunga til að leggja að velli bannmenninguna sem valdið hefur gremju meðal almennings,“ sagði Scheuer við fjölmiðlasamsteypuna Fuchs. Hann er þekktur fyrir að vilja ekki takmarka umferð dísilbíla. „Með staðreyndum sínum mun hún stuðla að hlutlægni í umræðunni,“ sagði ráðherrann um læknayfirlýsinguna.

agas@mbl.is

Ágúst Ásgeirsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: