Endurselja orkuna inn á dreifikerfin

Rafbílar geta verið í senn þiggjendur og gefendur.

Eigendur rafbíla á meginlandi Evrópu verða ekki bara þiggjendur rafhleðslustöðva heldur einnig gefendur þegar samtengt og gagnhverft hleðslukerfi fyrir rafbíla kemur til sögunnar. Franski bílsmiðurinn Renault Group, einn helsti framleiðandi rafbíla í Evrópu, undirbýr nú mikla uppbyggingu á slíku hleðslukerfi fyrir rafbíla.

Um tilraunaverkefni er að ræða sem framkvæmt verður til að byrja með í
Hollandi og Portúgal. Þar er ætlunin að koma upp kerfi fyrir rafbílaeigendur þannig að
þeir geti bæði hlaðið bíla sína og miðlað (selt) raforku af bílunum inn á grunnraforkukerfið.

Meginávinningurinn af verkefninu er annars vegar sá að kerfið gerir rafbílaeigendum kleift
að lækka rekstrarkostnað með því að selja raforku af bílnum um leið og tæknin er til þess
fallin að létta álagi af raforkufyrirtækjunum þegar eftirspurn eftir raforku er mikil þar sem
kerfin fá viðbótarraforku frá rafbílum inn á kerfið.

Að sögn talsmanna Renault þarf aðeins að gera lítils háttar breytingu á búnaði bílanna til að gera þetta kleift auk breytinga á núverandi hleðslupóstum þar sem rafbílum er stungið i samband til hleðslu.

Hefst í Hollandi og Portúgal

Verkefnið hefst með því að fimmtán Renault ZOE rafbílum verður breytt í þágu verkefnisins
á þessu ári til að kynna verkefnið og möguleika þess og til að leggja grunn að
framtíðarstöðlum með samstarfsaðilum Renault; We Drive Solar í Utrecht í Hollandi og
orkufyrirtækinu Empresa de Electricidade da Madeira í Porto Santo í Portúgal. Í kjölfarið er
ætlunin að framkvæma sambærileg tilraunaverkefni í Frakklandi, Þýskalandi, Sviss, Svíþjóð
og Danmörku.

mbl.is