Jaguar I-Pace „Heimsbíll ársins“

Heimsbíll ársins, Jaguar I-Pace, á stalli sínum á bílasýningunni í …
Heimsbíll ársins, Jaguar I-Pace, á stalli sínum á bílasýningunni í New York. AFP

Rafdrifni sportjeppinn Jaguar I-Pace var kjörinn „heimsbíll ársins 2019“ við upphaf bílasýningarinnar í New York sem hófst í síðustu viku og stendur til sunnudags.

I-Pace reið feitum hesti frá athöfninni því auk aðalverðlaunanna hlaut bíllinn bæði hönnunarverðlaun ársins og einnig umhverfisverðlaun ársins sem grænasti bíll ársins 2019. Þess má geta, að árið 2017 var Jaguar F-Pace kjörinn heimsbíll ársins.

Jaguar I-Pace er ekki aðeins heimsbíll ársins heldur einnig „Bíll ársins í Evrópu 2019“, en þau verðlaun hlaut bíllinn við upphaf bílasýningarinnar í Genf í byrjun mars. Alls hefur I-Pace unnið á sjötta tug alþjóðaverðlauna frá því að Jaguar kynnti bílinn fyrir aðeins rúmu einu ári síðan.

Mikið drægi og orka

„I-Pace er fjórhjóladrifinn fimm sæta sportjeppi með tvo rafmótora og 90kW rafhlöðu sem unnt er að hlaða frá 0-80% á innan við 45 mínútum með DC 100kW hleðslutæki. Bíllinn er um 400 hestöfl og innan við 5 sekúndur að ná 100 km hraða frá kyrrstöðu í 100 km/klst.

Rafmótorar I-Pace skila um 90% orku rafhlöðunnar beint til hjólanna, en til viðmiðunar skila sér einungis milli 30% og 40% orku bensín- og dísilbíla til hjólanna. Afgangurinn eyðist í viðnámi hinna fjölmörgu vélarhluta sem rafbílar eru að mestu lausir við. Drægi I-Pace er um 470 km.

mbl.is