Þegar styrjöld geysar í aftursætinu

Hættuástand vill skapast við illindi barna í aftursæti bíla.
Hættuástand vill skapast við illindi barna í aftursæti bíla.

Sex af hverjum tíu foreldrum í Evrópu, um 63%, segjast oft verða fyrir truflunum við akstur vegna rifrildis barna sinna í aftursæti bílsins. Um 29% foreldra viðurkenna að ástandið hafi ógnað öryggi sínu og annarra í umferðinni og segist þriðjungur þeirra ætla að skoða bíl með ökuaðstoð næst þegar komi að endurnýjum fjölskyldubílsins.

Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn sem Nissan lét framkvæma.
Samkvæmt henni stafar langmesta truflunin (65%) af völdum gráturs eða öskurs og 58% svarenda sögðu að það væri vegna rifrildis og jafnvel slagsmála. 49% sögðu að hættuástand skapaðist þegar börnin spörkuðu stöðugt í ökumannssætið, aftengdu öryggisbeltið eða hentu leikföngum frá sér og jafnvel út um gluggann.

Í rannsókninni kom fram að vegna ástandsins þyrftu foreldrarnir oft að snúa sér að börnunum og þar með að taka augun af veginum meðan á akstri stæði og jafnvel að sleppa taki á stýrinu. Margir sögðust hafa ekið yfir á rauðu ljósi vegna þessa, ekki gefið stefnuljós, stundum þurft að nauðhemla eða sveigja skyndilega yfir á næstu akrein og stöðva bílinn algerlega til að freista þess að koma stjórn á ástandið.

Forðast hraðbrautirnar

Það er því ekki að undra þótt margir segist kvíða því að fara út í umferðina og 15% svarenda sögðust forðast hraðbrautirnar þegar börnin væru í bílnum. Margir sögðust koma bæði of seint á áfangastað og í vondu skapi eftir rifrildi við börnin, makann og jafnvel hættuástand þar sem naumlega var komist hjá árekstri.

Aðrir sögðust reyna að dreifa athygli barna sinna með ýmsum ráðum til að koma í veg fyrir ófrið. Þannig sögðust 53% svarenda reyna að fá börnin til að syngja með sér í bílnum, 41% lætur þau hafa leikföng, 37% spjaldtölvu eða farsíma til að leika sér með og 22% gefa börnunum sælgæti á ferðalaginu.

Horfa til bíla með ökuaðstoð

Í rannsókninni kom fram að barnafjölskyldur horfa í auknum mæli til bíla með þróaðri ökuaðstoð og margir íhuga vandlega kaup á bíl með slíkri tækni svo unnt sé að tryggja betur öryggi fjölskyldunnar og annarra vegfarenda. Í því sambandi segjast foreldrarnir m.a. horfa til akreinaviðvörunar, virkrar neyðarhemlunar og gagnvirkrar hraðastjórnunar.

Dæmi um eina ökuaðstoð af mörgum er ProPilot í Nissan Leaf, sem einnig er von á í Qashqai og X-Trail síðar á þessu ári. Hún getur einmitt verið hjálpleg öryggisforvörn því hún inniheldur m.a. ofangreinda eiginleika.

„ProPilot hjálpar ökumanni að halda bílnum á miðri akreininni og kemur í veg fyrir rás. Kerfið er líka búið innbyggðri hraðastjórnun sem aðlagar sig að umferðarhraða annarra bíla og getur stöðvað bílinn birtist aðsteðjandi hætta fram undan til að koma í veg fyrir aftanákeyrslu eða annars konar óhapp. Gagnvirki hraðapedallinn eykur eða dregur úr hraða bílsins eftir því hversu þungt er stigið á hann þannig að nær óþarft er að nota bremsuhemilinn nema þegar stöðva þarf skyndilega. Kerfið fylgist líka með „blindum“ svæðum og umhverfinu aftan við bílinn. Það er t.d. þægilegt þegar lagt er í þröng bílastæði því kerfið lætur ökumanninn vita sé einhver fyrir aftan bílinn á meðan bakkað er eins og hægt er að kynna sér nánar á vefsíðunni nissan.is hjá BL,“ að því er segir í tilkynningu.

mbl.is