Toyota græðir landið

Sáttur viðskiptavinur tekur við birkigræðlingum úr höndum starfsmanns.
Sáttur viðskiptavinur tekur við birkigræðlingum úr höndum starfsmanns. Ljósmynd/Toyota á Íslandi

Júní er umhverfismánuður hjá Toyota á Íslandi. Af því tilefni hefur fyrirtækið tekið upp á að gefa viðskiptavinum, sem eiga leið um umboð þess, birkigræðlinga til gróðursetningar. Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota, segir viðtökurnar hafa verið vonum framar. „Þessu er rosalega vel tekið. Fólk þiggi plöntur til að gróðursetja við sumarbústaðinn eða í garðinum, auk þess sem margir eigi landskika sem þeir vilji græða.

Hann segir þó einkum áberandi að eldra fólk geti ekki tekið við plöntunum þar sem það sé á fullu við að grisja skóginn sinn, ekki að bæta við trjám. Það sé enda ómissandi þáttur skógræktar að muna að grisja skóginn þegar trén hafa vaxið um of.

Toyota á Íslandi hefur stutt við Skógræktarfélag Íslands í 30 ár og hefur sex skógum verið plantað í nafni fyrirtækisins um land allt. Þetta er þó í fyrsta sinn sem fyrirtækið tekur upp á að gefa viðskiptavinum plöntur til gróðursetningar. Dreifing hófst á þriðjudag og stendur fram á laugardag þegar opið hús verður í Kauptúni. Aðspurður segist Páll gera ráð fyrir að gefnar verði um 5-10.000 plöntur á því tímabili en þær plöntur, sem standa eftir, verða gróðursettar við bílaumboðið. Hann útilokar ekki að uppátækið verði árvisst héðan í frá.

Umhverfisvottað bílaumboð

Páll segir Toyota leggja mikla áherslu á umhverfisvernd. Auk skógræktar hefur fyrirtækið stutt við endurheimt votlendis og hlotið ISO-4001 vottun en í henni felst vottun á að sorphirða þess sé sem best verður á kosið. Nær allur úrgangur er flokkaður: plast, pappír, timbur, járn og fleira, og hlutfall óflokkaðs sorps einungis um 11 prósent. Var fyrirtækið sæmt viðurkenningunni Umhverfisfyrirtæki ársins á umhverfisdegi atvinnulífsins í fyrra.

Spurður hvernig umhverfisvitund hefur áhrif á bílaframboð Toyota, bílar séu jú mengandi, segir Páll að Toyota hafi um tuttugu ára skeið selt svokallaða tvinnbíla sem ganga fyrir eldsneyti en hafa einnig rafgeymi. Rafgeymirinn er þó ekki hlaðinn utanaðkomandi rafmagni líkt og hefðbundnir rafbílar heldur fæst raforkan með betri nýtni eldsneytisins.

„Þegar maður bremsar [á hefðbundnum bensínbíl] er maður í raun að henda orku, sem búið er að brenna. Í tvinnbílnum er rafall sem umbreytir þessari orku í stöðuorku á rafgeyminum, sem síðan má nýta.“ Þannig eyði slíkir tvinnbílar um 20-30% minna eldsneyti en hefðbundnir bensínbílar. 

Hlutfall tvinnbíla af bílasölu Toyota er nú um 25% og hækkar ár frá ári. Páll bendir á að bílaleigur kaupi jafnan ekki tvinnbíla og því sé hlutfallið enn hærra meðal sölu til einstaklinga og fyrirtækja.

Frá Kjarnaskógi á Akureyri. Þar er eitt sex skógræktarsvæða Toyota …
Frá Kjarnaskógi á Akureyri. Þar er eitt sex skógræktarsvæða Toyota á landinu. mbl.is/Golli
mbl.is