Á hraðferð til að bjarga kú og kálfi

Sigurður slapp við sekt þegar honum lá á við dýralæknisstörfin. …
Sigurður slapp við sekt þegar honum lá á við dýralæknisstörfin. Senn verða ráðherrabílarnir allir rafdrifnir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þó hann hafi greinilega eitthvert vit á bílum, og sterkar skoðanir á traktorum, segist Sigurður Ingi Jóhannsson ekki vera mikill bíladellukarl. Í samtalinu kemur þó fljótlega í ljós að samgöngu- og sveitastjórnarráðherra er veikur fyrir Range Rover, enda ökutæki sem reyndust honum vel á ferðinni milli sveitabæja þegar hann starfaði sem dýralæknir.

„Úti á landsbyggðinni er áríðandi að eiga bíl sem ræður við erfið akstursskilyrði og vetrarveður. Hann verður lika að vera öruggur og þægilegur, og þá sér í lagi ef hann er notaður sem vinnubíll.“

Sigurður játar að stundum hafi hann átt það til að aka fullgreitt þegar áríðandi var að komast sem fyrst á staðinn til að hlúa að veiku dýri. „Ég man t.d. eftir einu tilviki þar sem mér lá mikið á að ná til doðakýr sem gekk með kálf,“ segir Sigurður en doði er alvarleg veiki hjá nautgripum og stafar af kalkskorti við burð. Langt var á bæinn og mátti Sigurður engan tíma missa. „Ég ók sem leið lá eftir Suðurlandsveginum, en þetta var löngu áður en umferðin á þessum slóðum varð jafnþung og hún er í dag. Ég var aleinn á veginum, myrkur úti en þurrt, og veit ekki fyrr en að ég sé blá ljós blikka. Var þar kominn lögreglumaður sem var að sitja fyrir íbúum á svæðinu sem áttu það til að aka helst til dólgslega. Sagði ég honum eins og var, að það lægi á að hlúa að kúnni, bóndinn væri á Kanaríeyjum, vinnumaðurinn týndur að spila bridds einhvers staðar í sveitinni, og öldruð móðir bóndans – kona á níræðisaldri – biði komu minnar.“

Er skemmst frá því að segja að lögreglumaðurinn sýndi því fullan skilning að um neyðartilvik væri að ræða, svo Sigurður slapp við sekt og tókst að bjarga bæði kýr og kálfi.

Tugir milljarða í húfi

Þróunin í samgöngumálum hefur verið mjög ör undanfarin misseri og ár, og fjölmörg brýn verkefni sem ráðuneyti Sigurðar þarf að sinna. Þar á meðal er að hlúa að orkuskiptum í samgöngum, en skammt er síðan ákveðið var að við endurnýjun ráðherrabílaflotans skyldi skipta yfir í rafdrifna bíla. Sigurður segir oft þurfa að aka ráðherrabílunum langar vegalengdir og er það fyrst núna að verða raunhæfur möguleiki að komast á einni hleðslu frá stjórnarráðinu nánast hvert á land sem er. Þannig á t.d. ný langdrægniútgáfa af Tesla Model S að ná tæpa 600 km á hleðslunni, sem væri nóg til að komast alla leið á Austfirði í einum rykk.

Sigurður er mjög spenntur fyrir rafvæðingunni og segir að með lækkandi verði rafbíla muni það verða æ hagkvæmara fyrir þjóðarbúið að kveðja sprengihreyfilinn. „Við þurfum í dag að flytja inn eldsneyti fyrir 25 til 30 milljarða króna árlega til að knýja bílaflotann. Með rafbílum munu við í staðinn geta nýtt innlenda orku og þannig bæði dregið úr útblæstri og haldið þessum milljörðum króna áfram í hagkerfinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: