Atvinnu- og lúxusbílar áberandi í júní

Nýskráningar nýrra fólks- og sendibíla í júni og einnig frá …
Nýskráningar nýrra fólks- og sendibíla í júni og einnig frá áramótum.

Í júní voru 1.459 fólks- og sendibílar nýskráðir hér á landi, þar af 339 bílar af merkjum BL sem skilaði fyrirtækinu 23,2% markaðshlutdeild í mánuðinum og tæplega 29% hlutdeild það sem af er árinu.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá bifreiðaumboðinu BL. „Það sem helst vekur athygli þegar litið er til júnísölu BL er sterk staða á markaði atvinnubíla annars vegar og lúxusbíla hins vegar,“ segir þar.

Nýskráningar atvinnubíla frá BL voru 35, aðallega Renault og skiluðu um 35% hlutdeild í mánuðinum og tæplega 39% það sem af er ári á  þeim hluta markaðarins.

Á markaði lúxusbíla voru 52 nýskráningar í júní, aðallega frá Land Rover, BMW og Jaguar og var hlutdeild fyrirtækisins á þeim markaði 35% í júní og rúmlega 36% á fyrri árshelmingi.

Dacia og grænir bílar eftirsóttir

Rafbílasala BL í nýliðnum júní.
Rafbílasala BL í nýliðnum júní.


Af þeim merkjum sem BL hefur umboð fyrir var Dacia söluhæstur í júní með alls 112 nýskráningar. Næstur var Nissan með 62 nýskráningar og svo Hyundai með 50. Á markaði umhverfismildra bíla frá BL voru alls 67 slíkir nýskráðir í júní, 52 rafbílar og 15 tengiltvinnbílar.

Söluhæsti rafbíll BL var Hyundai með alls 29 nýskráningar, aðallega Kona EV. Aðrir voru frá Jaguar, Nissan, Renault og BMW, alls 23. Af tengiltvinnbílum var BMW með flestar nýskráningar, eða sjö. Aðrir voru frá Land Rover, Mini og Hyundai, alls átta.

mbl.is