Porsche Taycan á „hátíð hraðans“

Frumgerð hins nýja Porsche Taycan á ferð upp brekkuna í …
Frumgerð hins nýja Porsche Taycan á ferð upp brekkuna í Goodwood í síðustu viku.

Porsche hefur í fyrsta skipti sótt hina goðsagnarkenndu Goodwood hæð heim með hreinræktaðan, rafmagnaðan sportbíl.

Gjörningurinn var partur af þríleik Porsche þar sem Taycan mun koma við sögu í þremur heimsálfum á þremur vikum.

Frumgerð Taycan tók þátt í „hátíð hraðans“ í Goodwood með Mark Webber, fyrrverandi ökumann í formúlu-1, við stýrið. „Krafturinn í Taycan er geggjaður,” sagði hann. „Ég ók hérna fyrir tveimur árum í Porsche 911 GT2 RS bíl, þannig að ég vissi sem var að hér snýst allt um kraft og hvernig honum er komið til skila. En þótt ég sé atvinnuökuþór og ýmsu vanur er hröðun Taycan hreint út stórkostleg,“ bætir Webber í tilkynningu.

Taycan verður frumsýndur á bílasýningunni í Frankurt í september og kemur síðan á markað í lok ársins. „Eins og Porsche er von og vísa hefur markið verið sett hátt í þróun hins rúmlega 600 hestafla, fjórhjóladrifna bíls með brautarakstri, síendurteknum hröðunum og drægi sérsniðinni til daglegra nota. Hleðslutími bílsins er sérlega stuttur en hann verður búinn 90 kílóvattstunda litíumjóna rafgeymi,“ segir í tilkynningu.

Forsala á Porsche Taycan er þegar hafin hjá Bílabúð Benna, í nýjum heimkynnum Porsche á Íslandi að Krókhálsi 9. Er fyrsti árgangur bílsins þegar að verða uppseldur um heim allan.

Marc Webber ók frumgerð hins nýja Porsche Taycan í Goodwood. …
Marc Webber ók frumgerð hins nýja Porsche Taycan í Goodwood. Á þakið hefur verið málaður breski fáninn.
mbl.is